Mun átta sig þegar þjóðsöngvarnir verða spilaðir

Erlingur Richardsson í leiknum gegn Ungverjalandi.
Erlingur Richardsson í leiknum gegn Ungverjalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Eyjamaðurinn Erlingur Richardsson stendur frammi fyrir því að stýra liði gegn Íslandi á EM karla í handknattleik í kvöld þegar Ísland og Holland eigast við í Búdapest. 

Mbl.is spurði Erling sem er landsliðsþjálfari Hollands hvort þetta sé ekki einkennileg tilhugsun. 

„Það væri kannski betra að spyrja Dag [Sigurðsson] að þessu því hann hefur gert þetta svo oft. En ég hef reyndar einu sinni mætt Íslandi sem landsliðsþjálfari Hollands og það var á æfingamóti í Noregi. Ég held að ég muni ekki átta mig alveg á þessu fyrr en að þessu kemur og þjóðsöngvarnir verða spilaðir. Ég mun eiga vini og kunningja í í stúkunni og gamla iðkendur á vellinum. Þegar leikurinn verður byrjaður þá fer maður væntanlega bara í sinn ham,“ sagði Erlingur og hann segir að fyrirfram séu helmingslíkur á að leggja Ísland að velli. 

„Ætli ég segi ekki að þetta sé 50/50 en ég held að maður fari alltaf þannig í leikina. Þetta verður fróðlegt því þessi lið eru ekki með hávöxnustu leikmennina en góða handboltamenn. Flinka, fljóta og snögga. Ég held því að þetta geti orðið skemmtilegur leikur. Varðandi þetta líkamlega þá verður Ísland öðruvísi andstæðingur heldur en Ungverjaland,“ sagði Erlingur þegar mbl.is tók hann tali í Búdapest. 

Þess má geta að Daníel Þór Ingason sem er í landsliðshópnum á EM er tengdasonur Erlings. 

mbl.is