Ný upplifun fyrir Elliða í kvöld

Elliði lengst til hægri þakkar fyrir stuðninginn í kvöld ásamt …
Elliði lengst til hægri þakkar fyrir stuðninginn í kvöld ásamt liðsfélögunum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Elliði Snær Viðarsson kom lítið við sögu í leiknum gegn Portúgal en lék mikið gegn Hollandi í Búdapest í kvöld þegar Ísland vann aftur á EM í handknattleik. 

Elliða fannst hann upplifa í kvöld í fyrsta skipti hvernig það sé að spila mikilvægan landsleik fyrir Íslands hönd. Hann lék heilmikið á HM í Egyptalandi í fyrra en þá voru engir áhorfendur leyfðir. Í kvöld voru hins vegar rúmlega 14 þúsund manns á leiknum. 

„Það var ótrúlega gaman að koma inn í þennan leik þar sem þetta er fyrsti landsleikurinn sem ég spila fyrir framan áhorfendur. Þetta var ótrúlega gaman og ég fékk gæsahúð. Í Egyptalandi var æfingaleikjabragur á leikjunum vegna þess að áhorfendastúkurnar voru tómar. Núna fær maður alvöruupplifun af því hvernig er að vera í landsliðinu,“ sagði Elliði þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum í kvöld en fyrir utan að berjast í vörninni skoraði Elliði tvö mörk í leiknum.

Elliði Snær Viðarsson einbeittur í leiknum í kvöld.
Elliði Snær Viðarsson einbeittur í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Mikil spenna var á lokakafla leiksins en Elliði segir taugarnar hafa haldið hjá íslensku leikmönnunum. 

„Það er kannski sama tuggan að tala um karakterinn í liðinu en við þorðum að taka skotin undir lok leiksins. Við þorðum að reyna sirkusmark sem dæmi og sýndum kjark,“ sagði Elliði. Er þetta þá vísbending um að sjálfstraustið sé til staðar? „Já og liðsandinn er góður. Menn treysta hver öðrum. Menn losa boltann og treysta næsta manni til að skora. Það hefur skilað okkur þessum tveimur sigrum sem eru komnir í hús. 

mbl.is