Það mátti engu muna

Guðmundur Guðmundsson kemur skilaboðum áleiðis í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson kemur skilaboðum áleiðis í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Michellere

„Þetta var mjög erfiður leikur,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karlaliðs Íslands í handbolta í samtali við RÚV eftir nauman 29:28-sigur á Hollandi á Evrópumótinu í dag. Ísland náði mest fimm marka forskoti en þrátt fyrir það voru lokamínúturnar æsispennandi.

„Sóknarleikurinn var stórkostlegur eiginlega allan leikinn, fyrir utan kafla á móti 5-1 vörninni. Við leystum það síðan þegar Janus kom inn og kom með nýja vídd inn í þetta. Þá fórum við að sækja betur á þá en misnotum á sama tíma dauðafæri. Þess vegna var þetta svona rosalega jafnt í lokin og það mátti engu muna.

Þetta var erfiður leikur eins og við bjuggumst við og það var ekki gott að missa Ómar út af með tvisvar tvær. Við vorum í skiptivandamálum og það er erfitt að verjast þeim. Við vorum að misnota dauðafæri og svo keyrðu þeir í bakið á okkur,“ bætti Guðmundur við.

Leikmenn Íslands ræða við dómarana í kvöld.
Leikmenn Íslands ræða við dómarana í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Michellere

Hann var ekki mjög sáttur við störf Austurríkismannanna Radojko Brkic og Andrei Jusufhodzic sem dæmdu leikinn. „Þetta var erfið dómaralína en ég ætla að láta aðra dæma um það. Mér fannst margir dómarnir mjög skrítnir og gerði þetta ekki auðveldara en ég er ekki að kenna þeim um.“

Guðmundur vill væntanlega ekki leggja það í vana að missa niður fimm marka forskot en hann segir nútíma handbolta bjóða upp á sveiflur. „Handboltinn er svona, þú getur ekki gert kröfur á að halda forskotinu alltaf. Svona er þessi íþrótt og þetta er það sem er svona fallegt við hana. Við verðum að fara yfir leikinn okkar á móti 5-1. Það var ekki nægilega vel útfært. Það er hættulegt að ætla að verja eitthvað forskot,“ sagði hann.

Þrátt fyrir tvo sigra í fyrstu tveimur leikjunum er Ísland alls ekki öruggt með sæti í milliriðli. „Þetta er með ólíkindum. Þá er ekkert annað að gera en að fara í Ungverjaleikinn og ná í sigurinn þar,“ sagði Guðmundur að lokum.

mbl.is