„Held að það þurfi meira til að brjóta þessa gæja“

Björgvin Páll Gústavsson í loftköstum í leiknum gegn Hollandi.
Björgvin Páll Gústavsson í loftköstum í leiknum gegn Hollandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Björgvin Páll Gústavsson varði tíu skot í marki Íslands á móti Hollandi á EM í handknattleik í gær. Ísland vann 29:28 og hefur þá unnið fyrstu tvo leikina í keppninni. 

Mikið gekk á eftir að Hollendingar náðu að jafna og lokamínúturnar voru æsispennandi. 

„Þetta var alveg ruglað á báðum endum vallarins. Við vissum að leikurinn yrði nákvæmlega svona. Við vorum búnir undir hraðan leik. Við vorum komnir í góða stöðu en misstum hana frá okkur. Þeir fóru að spila 5-1 vörn sem við áttum alveg eins von á en okkur tókst ekki að leysa það nægilega vel. Þrátt fyrir það þá skiluðum við stigunum í hús og það er það sem skiptir öllu máli. Það sýnir styrk og halda einbeitingu og halda ró sinni eftir að hafa glutrað niður forskoti fyrr í leiknum. Við vorum í rauninni komnir með bakið upp við vegg seint í leiknum og þá hefði kannski verið auðvelt að brotna. En ég held að það þurfi meira til að brjóta þessa gæja sem eru í landsliðinu. Við sýndum á mikilvægum augnablikum að menn geta skilað sínum hlutverkum vel.“

Björgvin Páll lætur í sér heyra á hliðarlínunni.
Björgvin Páll lætur í sér heyra á hliðarlínunni. Ljósmynd/Szilvia Michellere

Ómar Ingi Magnússon hafði fengið tvær brottvísanir eftir nítján mínútur og Elvar Örn Jónsson einnig eftir rúmar fjörutíu mínútur. Gerðu austurrísku dómararnir mistök eða áttu þessar brottvísanir rétt á sér?

„Línan hjá dómurunum var svona allan leikinn. Við vissum að þetta gæti komið fram í fyrstu sóknunum. Við settum sjálfir línu en náðum ekki alveg að stýra henni. Maður þarf stundum að velja og hafna í vörninni á móti góðum liðum. Við vorum að mæta liði sem er með þrjá leikmenn fyrir utan sem eru ógeðslega góðir maður á móti manni, mjög fljótir en einnig hættulegir skotmenn. Við þurftum stundum að velja og hafna. Okkur tókst stundum að gera þeim erfitt fyrir en það kostaði okkur líka. Þeir keyrðu hratt allan leikinn og reyndu að hvíla menn inn á milli. Þegar varamennirnir komu inn á þá voru þeir ekki eins góðir. Þeir spila svo hratt að það er erfitt að halda það út á svona móti en það er hægt í leik númer tvö eins og í kvöld,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson þegar mbl.is tók hann tali í MVM-höllinni að leiknum loknum.

mbl.is