Noregur og Svíþjóð í milliriðla

Lukas Sandell í baráttunni í leik Tékklands og Svíþjóðar í …
Lukas Sandell í baráttunni í leik Tékklands og Svíþjóðar í kvöld. AFP

Noregur og Svíþjóð eru komin áfram í milliriðla á Evrópumóti karla í handknattleik sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Svíar gerðu 27:27-jafntefli gegn Tékklandi í E-riðli keppninnar í Bratislava í kvöld þar sem Hampus Wanne og Lukas Sandell voru markahæstir í sænska liðinu með fimm mörk hvor.

Svíar enda í öðru sæti riðilsins með 3 stig og fara áfram í milliriðla ásamt Spáni en Tékkland er úr leik.

Þá unnu Norðmenn öruggan 35:29-sigur gegn Litháen í F-riðli í Kosice þar sem Sander Sagosen og Sebastian Barthold skoruðu sjö mörk hvor fyrir Noreg.

Noregur endar í öðru sæti riðilsins með 4 stig en Rússar fögnuðu sigri í riðlinum fyrr í dag með 6 stig.

Nikola Karabatic sækir að Serbum í kvöld.
Nikola Karabatic sækir að Serbum í kvöld. AFP

Þá var Kentin Mahe markahæstur í liði Frakklands þegar liðið vann fjögurra mark sigur gegn Serbíu í C-riðli keppninnar í Szeged.

Frakkar ljúka riðlakeppninni með fullt hús stiga eða 6 stig en Króatía fylgir þeim í milliriðla með 4 stig.

Danir unnu svo öruggan tíu marka sigur gegn Norður-Makedóníu í A-riðlinum í Debrecen þar sem Niclas Vest Kirkelökke var markahæstur með 9 mörk.

Danir voru öruggir með sæti í milliriðlum fyrir leik kvöldsins en þeir ljúka riðlakeppninni með 6 stig eða fullt hús stiga og Svartfjalland fylgir þeim áfram úr A-riðlinum.

mbl.is