Rússland í milliriðla

Roman Ostashchenko reynir skot að marki Slóvaka.
Roman Ostashchenko reynir skot að marki Slóvaka. AFP

Rússland er komið áfram í milliriðli á Evrópumóti karla í handknattleik eftir öruggan 36:27-sigur gegn Slóvakíu í F-riðli keppninnar í Kosice í dag.

Sigur rússneska liðsins var aldrei í hættu en þeir leiddu með tíu mörkum í hálfleik, 19:9. Sergei Kosorotov var markahæstur Rússa með sjö mörk og þeir Pavel Andreev og Nikita Kamenev skoruðu fimm mörk hvor. Þá varði Victor Kireev tíu skot í markinu.

Rússar enduðu með 6 stig í efsta sæti riðilsins en úrslitin þýða að Noregur er einnig komið áfram í milliriðli en Norðmenn mæta Litháen síðar í kvöld í Kosice í lokaleik sínum í riðlakeppninni.

Spánverjar fögnuðu með fullt hús stiga í leikslok.
Spánverjar fögnuðu með fullt hús stiga í leikslok. AFP

Þá ljúka Spánverjar riðlakeppninni með 6 stig eða fullt hús stiga eftir 28:24-sigur gegn Bosníu í Bratislava í E-riðli.

Agustín Casado var markahæstur í liði Spánverja með sjö mörk en spænska liðið var tveimur mörkum undir í hálfleik, 12:14.

Spánverjar eru með 6 stig í efsta sæti riðilsins en Tékkland og Svíþjóð, sem mætast síðar í kvöld, berjast um annað sætið.

Marin Sipic og liðsfélagar hans í Króatíu eru ekki öruggir …
Marin Sipic og liðsfélagar hans í Króatíu eru ekki öruggir áfram. AFP

Króatía vann stórsigur gegn Úkraínu, 38:25, í C-riðli í Szeged en Króatar þurfa að bíða eftir að leikur Frakklands og Serbíu klárist áður en þeir geta fagnað sæti í milliriðlum.

Þá tryggðu Svartfjalland sér sæti í milliriðlum með 33:32-sigri gegn Slóveníu í A-riðlinum í Debrecen en Danmörk er öruggt með efsta sæti A-riðils og mætir Norður-Makedóníu síðar í kvöld.

mbl.is