Sá þessa stöðu fyrir sér

Bjarki Már Elísson í skotstöðu í leiknum gegn Portúgal en …
Bjarki Már Elísson í skotstöðu í leiknum gegn Portúgal en hann skoraði þá 4 mörk. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Vinstri hornamaðurinn Bjarki Már Elísson hefur spilað allar 120 mínúturnar til þessa á EM í handknattleik í Búdapest. 

Bjarki sagðist í samtali við mbl.is í dag vera ferskur fyrir leikinn gegn Ungverjalandi á morgun en annað kvöld skýrist hvort Ísland komist áfram í milliriðil í keppninni. 

„Ég gerði nú ekki mikið í gær,“ sagði Bjarki hlæjandi en hann kom óvenjulítið við boltann en skoraði eitt mark úr horninu þegar færi gafst. 

„En skrokkurinn er fínn og ég er bara ferskur. Maður hefur gert þetta áður auk þess er oft mikið álag hjá félagsliðum. Við [hjá Lemgo] erum til dæmis í Evrópukeppni og höfum nokkrum sinnum spilað á sunnudegi í þýsku deildinni og Evrópuleik á þriðjudegi. Maður lærir á líkamann og hvernig maður á að bera sig að til að vera tilbúinn í næsta leik. Þetta er því ekki nýtt fyrir manni þótt þar sé ekki leikið alveg svona þétt. En hjá félagsliðum spila ferðalögin inn í en hérna erum við þó á sama stað á milli leikja. Auk þess er gott aðgengi að sjúkraþjálfurum og ýmis úrræði í boði til að ná endurheimt á milli leikja. Við kunnum þetta flestir landsliðsmennirnir og þeir sem kunna þetta ekki geta þá lært af þeim sem kunna.“

Bjarki skilar boltanum í netið hjá Hollendingum.
Bjarki skilar boltanum í netið hjá Hollendingum. Ljósmynd/Szilvia Michellere


Ísland hefur unnið fyrstu tvo leikina í keppninni. Oft getur slíkt verið nóg til að komast áfram en riðill Íslands hefur spilast með þeim hætti að ekkert er öruggt enn þá. Bjarki sagðist hafa séð það fyrir sér fyrir mótið að mikið yrði undir í leiknum gegn Ungverjalandi. 

„Það er ljúft að hafa unnið báða leikina og við stefndum að því fyrir mót. Manni fannst fyrir mót eins og við myndum fara í úrslitaleik í riðlinum við Ungverja í þriðju umferð. Maður sá það einhvern veginn fyrir sér að þetta gæti endað þannig. Það er staðan og það er gott að vera með fullt hús þótt við hefðum viljað vinna aðeins stærri sigur. Við förum sáttir inn í leikinn og ætlum okkur að koma sáttir út úr honum,“ sagði Bjarki og er fullur tilhlökkunar að spila fyrir framan 20 þúsund Ungverja á morgun. 

„Þetta verður bara skemmtilegt enda eru þetta skemmtilegustu leikirnir. Fyrir nokkrum árum [EM 2018] spiluðum við gegn Króötum í Split þegar þeir voru á heimavelli. Við þessar aðstæður eru allir á móti þér en ég tel okkar möguleika vera góða,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert