Fimm nýir leikmenn bíða niðurstöðu

Paul Drux er einn fimmmenninganna sem eru komnir til Bratislava.
Paul Drux er einn fimmmenninganna sem eru komnir til Bratislava. AFP

Þeir fimm leikmenn sem Alfreð Gíslason hefur kallað inn í þýska landsliðshópinn í handknattleik í stað þeirra sem greindust smitaðir af kórónuveirunni eru mættir til Bratislava og bíða niðurstöðu úr skimun.

Þetta er þrír mjög reyndir landsliðsmenn, þeir Johannes Bitter markvörður, Paul Drux og Fabian Wiede, sem og Rune Dahmke og Sebastian Firnhaber.

Leikur Póllands og Þýskalands hefst klukkan 17.00 að íslenskum tíma og aðeins verður hægt að tefla fimmmenningunum fram ef niðurstaðan verður komin fyrir þann tíma. 

Þýskaland og Pólland eru bæði komin áfram í milliriðil, eru með fjögur stig hvort eftir tvo leiki í D-riðli, en leikurinn er afar mikilvægur því stigin úr honum verða tekin með og í raun er um að ræða fyrsta leik milliriðilsins hjá báðum liðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert