Holland í milliriðla í fyrsta sinn

Holland fylgir Íslandi í milliriðla.
Holland fylgir Íslandi í milliriðla. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Erlingur Birgir Richardsson og lærisveinar hans í hollenska karlalandsliðinu í handknattleik eru komnir áfram í milliriðla á Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu eftir sigur gegn Portúgal í lokaumferð B-riðils keppninnar í Búdapest í kvöld.

Leiknum lauk með 32:31-sigri Hollands en staðan í hálfleik var 17:13, Hollandi í vil, í hálfleik.

Hollendingar voru mun sterkari aðilinn framan af og voru með gott forskot í hálfleik. Þeir náðu mest fimm marka forskoti í síðari hálfleik, 22:17, en Portúgal tókst að gera leikinn spennnandi á lokamínútunum með laglegri endurkomu.

Kay Smits skoraði átta mörk fyrir hollenska liðið og Dani Baijens gerði sex mörk. Bart Ravensbergen átti góðan leik í markinu og varði 13 skot. 

Holland er því komið áfram í millriðla í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar þar sem andstæðingar liðsins verða Danmörk, Svartfjalland, Frakkland og Króatía.

Þá vann Hvíta-Rússland 29:26-sigur gegn Austurríki í D-riðli keppninnar í Bratislava en hvorugt lið átti möguleika á því að fara áfram í milliriðla eftir töp gegn bæði Þýskalandi og Póllandi.

mbl.is