Hræðilegt að vera fallnir úr keppni

Roland Mikler markvörður og fyrirliði þakkar íslensku leikmönnunum fyrir leikinn …
Roland Mikler markvörður og fyrirliði þakkar íslensku leikmönnunum fyrir leikinn að honum loknum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ungversku leikmennirnir voru miður sín eftir ósigurinn gegn Íslandi í Búdapest í kvöld því úrslitin þýða að þeir komast ekki áfram í milliriðlakeppni Evrópumóts karla í handknattleik á eigin heimavelli.

Holland og Portúgal leika þessa  stundina hreinan úrslitaleik um annað sætið þar sem Hollendingar standa vel að vígi og mega tapa leiknum með einu marki. Ungverjar eru úr leik, sama hvernig leikurinn endar.

„Það er erfitt að tala um þetta og upplifa þetta. Við bjuggum okkur alls ekki undir það að svona færi. En því miður er það staðreynd," sagði fyrirliðinn og markvörðurinn Roland Mikler við Nemzeti Sport í Ungverjalandi eftir leikinn.

„Við lögðum hjarta okkar og sál í leikinn og ég vona að fólk hafi séð það. Ég vil þakka skipuleggjendum, sjálfboðaliðunum og svo þessum 20 þúsund áhorfendum sem borguðu sig inn og reyndu að ýta okkur yfir línuna," sagði Mikler.

„Þetta var hræðilegt í lokin. Við vildum svo mikið komast áfram, við spiluðum mjög vel en vorum slegnir út af mjög góðu íslensku liði. Við verðum að horfa í eigin barm. Ég vil ekki áfellast dómarana en það voru nokkrar ákvarðanir þarna í lokin sem hefðu getað fallið öðruvísi. Þetta er ekki það sem við stefndum að og ég vil þakka áhorfendum sem studdu okkur gríðarlega í þessum þremur leikjum og sköpuðu magnaða stemningu. Þeir hefðu verðskuldað fleiri leiki," sagði Richárd Bodó.

„Þetta voru þrír erfiðir leikir en við vissum að Evrópumótið væri þannig. Okkur tókst ekki að snúa leiknum okkur í hag á réttum augnablikum, gerðum slæm mistök og fengum of mikið af mörkum á okkur. Það má ekki gera mörg mistök á móti góðu liði eins og því íslenska," sagði þjálfarinn István Gulyás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert