Ísland í milliriðla með fullt hús stiga

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik er komið áfram í milliriðla á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu með fullt hús stiga eftir 31:30-seiglusigur gegn gestgjöfunum í Ungverjalandi í B-riðli keppninnar í Búdapest í kvöld.

Íslenska liðið endaði með 6 stig eða fullt hús stiga þar sem liðið vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og liðið tekur því 2 stig með sér í milliriðil 1, sama hvernig leikur Hollands og Portúgals fer síðar í kvöld.

Elvar Örn Jónsson brýst í gegnum vörn Ungverja.
Elvar Örn Jónsson brýst í gegnum vörn Ungverja. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Leikurinn var í járnum allan fyrri hálfleikinn en Bjarki Már Elísson skoraði fyrsta mark leiksins eftir hraðaupphlaup.

Liðin skiptust á að skora eftir þetta en Bence Bánhidi kom Ungverjum yfir, 6:5, þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum.

Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi tveimur mörkum yfir, 12:10, eftir sautján mínútna leik en Ungverjar voru fljótir að jafna metin í 13:13.

Aron Pálmarsson kom Íslandi 17:16 yfir þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik en Richárd Bodó jafnaði metin í 17:17 með lokaskoti fyrri hálfleiks og staðan því jöfn í hálfleik.

Ómar Ingi Magnússon skorar í leiknum í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon skorar í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Síðari hálfleikurinn var í járnum líkt og sá fyrri og Máté Lékai kom Ungverjum yfir í 20:19 í fyrsta sinn síðan á 9. mínútu eftir 35 mínútna leik.

Áfram skiptust liðin á að skora og Ísland leiddi með tveggja marka mun, 24:22, þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Mikið jafnræði var með liðunum eftir þetta en Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi einu marki yfir úr vítakasti, 30:29 þegar fimm mínútur voru ti leiksloka.

Ungverjar jöfnuðu áður en Sigvaldi Björn Guðjónsson kom Íslandi 31:30-yfir þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.

Björgvin Páll Gústafsson átti frábærar lokamínútur og varði þrjú afar mikilvæg skot frá Ungverjum og það gerði gæfumuninn. 

Sigvaldi Björn Guðjónsson skorar í fyrri hálfleiknum í kvöld.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skorar í fyrri hálfleiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu með 9 mörk og Ómar Ingi Magnússon skoraði 8 mörk. Þá varði Björgvin Páll Gústafsson 14 skot í markinu, þar af eitt vítakast.

Ísland leikur í milliriðli 1 ásamt Danmörku, Svartfjallalandi, Frakklandi, Króatíu og annaðhvort Hollandi eða Portúgal en það ræðst síðar í kvöld.

Keppni í milliriðlum hefst 20. janúar og verður milliriðill Íslands leikinn í Búdapest.

Ungverjaland 30:31 Ísland opna loka
60. mín. Ísland tapar boltanum Ruðningur.
mbl.is