„Þetta er stærsta sviðið“

Ólafur Guðmundsson í kunnulegri stöðu.
Ólafur Guðmundsson í kunnulegri stöðu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ólafur Guðmundsson er einn reyndasti leikmaður handboltalandsliðsins sem nú keppir fyrir Íslands hönd á EM í Búdapest. Ólafur fór fyrst á stórmót árið 2010 þegar Ísland vann til bronsverðlauna í Austurríki. Mbl.is spurði Ólaf hversu gott landsliðið væri nú í samanburði við önnur landslið sem hann hefur verið í.

„Maður vill ekki vera að bera liðin of mikið saman en einnig er svolítið erfitt að leggja mat á þetta í miðju móti. En meðan á öllum undirbúningnum stóð fann maður að mikið sjálfstraust er í liðinu. Einhvers staðar var það orðað þannig að það væri eitthvað í loftinu og við finnum fyrir því. Andinn er góður, liðið er vel mannað, erum með breiðan hóp, erum hættulegir í mörgum stöðum og með heilsteypt lið. Þetta lítur rosalega vel út á margan hátt satt best að segja. Það er rosalega mikilvægt að það sé sjálfstraust í hópnum þegar komið er í lokakeppni. Þegar maður fær meiri fjarlægð á mótið getur maður dæmt betur um þetta, en ég get alla vega sagt að mér finnst liðið þétt og líta vel út miðað við fyrstu tvo leikina og undirbúninginn,“ sagði Ólafur þegar mbl.is ræddi við hann í Búdapest. 

Í kvöld spilar Ísland síðasta leik sinn í B-riðlinum á EM þegar gestgjafarnir Ungverjar taka á móti Íslendingum í hinni glæsilegu MVM-höll. Búast má við rúmlega 20 þúsund manns og bæði liðin eru að berjast fyrir því að komast áfram í milliriðil á mótinu. Er ekki vonin um að spila leiki eins og þennan einmitt ástæðan fyrir því að menn leggja það á sig að æfa á hverjum degi í áraraðir?

„Jú, þetta er stærsta sviðið. Við erum á stórmóti í frábærri höll að spila á móti heimaþjóðinni sem er með allt sitt á bak við sig. Þeir eru með gott lið og við erum með gott lið. Eins og þú segir þá er þetta leikur sem passar í öll boxin. Þetta er það sem maður vill vera að gera í íþróttinni.“

Ólafur skorar á móti Portúgal á EM í Búdapest.
Ólafur skorar á móti Portúgal á EM í Búdapest. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Spurður um hvað menn þurfi að gera til að njóta augnabliksins frekar en að verða of taugaspenntir segir Ólafur það vera mjög einstaklingsbundið. 

„Ég held að það sé misjafnt eftir leikmönnum hvernig þeir vilja tækla þetta og hvað þeim finnst best að gera. Það er engin ein rétt leið í þessu. Sem lið tökum við bara á móti stressinu og pressunni og notum það án þess að gera lítið úr mikilvægi leiksins. Þetta er eins og það er. Þetta er æðislegt en samt er þetta erfitt og við munum fá fiðring í magann. Maður þarf að nota þetta á réttan hátt en ekki fara inn í sig og verða hræddur. Menn þurfa að nota orkuna og adrenalínið og keyra á þetta. Sem lið reynum við að gera það,“ sagði Ólafur Guðmundsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is