Ísland vantar línumann og markvörð í heimsklassa

Kasper Söndergaard segir Gísla Þorgeir Kristjánsson afskaplega spennandi leikmann.
Kasper Söndergaard segir Gísla Þorgeir Kristjánsson afskaplega spennandi leikmann. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Kasper Söndergaard, sérfræðingur danska ríkisútvarpsins DR um EM 2022 í handbolta, segir að Ísland skorti línumann og markvörð í heimsklassa.

Í samtali við DR segir hann einnig að íslenska liðið sé afar spennandi.

„Íslandi hef ég spáð langt í þessari lokakeppni. Þeir eru nógu góðir til þess og eru með geðveikt spennandi leikmenn, sérstaklega í sóknarstöðunum úti á velli.

Um þessar mundir er mest spennandi leikmaður þeirra leikstjórnandinn í Magdeburg, Gísli Þorgeir Kristjánsson. Hann er með ofboðslegan sprengikraft og er virkilega hæfileikaríkur leikstjórnandi sem er bæði hættulegur sjálfur auk þess sem hann stillir sóknum vel upp,“ sagði Söndergaard.

Um veikleika Íslands sagði hann: „Þá vantar línumann og markvörð í heimsklassa. Væru þeir með slíka í sínum röðum teldust þeir eitt af sigurstranglegustu liðum mótsins.“

Söndergaard bætti því við að Ísland nyti þess til hins ýtrasta að vinna Danmörku og að Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands, sem stýrði Dönum til ólympíugulls árið 2016, myndi eflaust gjarna vilja það.

„Danir eru sigurstranglegri gegn Íslandi en það getur vel verið að þetta verði jafn leikur. Ísland elskar að vinna Danmörku. Þeir eru litli bróðir, það eru ekki svo margir sem búa þarna og Guðmundur væri líka til í að vinna Dani. Ég efast alls ekki um það.“

Ísland og Danmörk mætast í fyrsta leik milliðiriðils 1 annað kvöld klukkan 19.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert