Lét leikinn koma til sín

Bjarki Már skorar úr hraðaupphlaupi í leiknum í kvöld.
Bjarki Már skorar úr hraðaupphlaupi í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Bjarki Már Elísson var markahæstur með 9 mörk þegar Ísland vann Ungverjaland 31:30 á EM í handknattleik í kvöld. 

„Þetta var ólýsanlegt. Ég er svo hátt uppi að ég veit varla hvað er í gangi. Það er svo mikill karakter í þessu liðinu. Við hefðum getað brotnað svo oft í seinni hálfleik. Þegar þeir jafna og komast yfir, þegar við fáum á okkur ruðning os frv. Í svona umhverfi þar sem spennustigið er hátt og heimaliðið með alla á bak við sig þá eru þetta oft snúningspunktarnir í leikjunum. En við komum alltaf til baka og náðum að vinna. Það sýnir hvert við erum komnir en við erum ekki farnir á flug. Við njótum í kvöld en svo vöknum við á morgun og byrjum að undirbúa næsta leik,“ sagði Bjarki þegar mbl.is greip hann í MVM höllinni að leiknum loknum. 

Blaðamaður hafði einnig orð á því við Aron fyrirliða að leikir eins og þessi, sem verða að hálfgerðu sálarstríði, virðast engan endi ætla að taka. „Ég er alveg sammála. Ég leit oft á klukkuna í síðari hálfleik og skildi aldrei hversu mikið var eftir. Bæði liðin skoruðu mikið og þá verður lítið sem skilur að. Ég er hrikalega stoltur af liðinu og þetta er geggjað. Ég get ekki lýst þessu öðruvísi.“

Bjarki skorar magnað mark í síðari hálfleik eftir að hafa …
Bjarki skorar magnað mark í síðari hálfleik eftir að hafa brunað einn fram á miðja vörn Ungverja þegar Ísland tók hraða miðju. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Bjarki fékk fá skotfæri í leiknum gegn Hollandi. Ísland fékk þá nánast engin hraðaupphlaup og sjaldan var stimplað niður í vinstra hornið til Bjarka. Hollendingar lögðu áherslu á að stöðva það en Sigvaldi Björn Guðjónsson refsaði þess í stað í hægra horninu. Gegn Ungverjum var annað uppi á teningnum. Bjarki skoraði úr hraðaupphlaupum, úr horni, af línunni og tvö af vítalínunni. 

„Ég var ekkert inni í leiknum gegn Hollandi og mér var alveg sama vegna þess að við unnum. En mig langaði samt sem áður að vera meira með í leiknum gegn Ungverjum. Ég heyrði í Viðari Halldórs [félagsfræðikennara í HÍ] vini mínum og við áttum gott spjall. Ég breytti aðeins minni nálgun. Ég lét leikinn koma til mín frekar en að vera fúll í horninu að bíða. Ég vil að liðið komist eins langt og mögulegt er. Það er númer eitt, tvö og þrjú en svo langar mann bara að taka þátt í því eins og mögulegt er,“ sagði Bjarki Már í samtali við mbl.is. 

mbl.is