Vallarþulurinn hælir Sigvalda á hvert reipi

Ungverjarnir reyndu hvað þeir gátu að halda aftur af Sigvalda. …
Ungverjarnir reyndu hvað þeir gátu að halda aftur af Sigvalda. Eins langt og það nær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur spilað virkilega vel í hægra horninu á EM í handknattleik í Búdapest og er markahæstur Íslendinga til þessa með 18 mörk.

Sigvaldi var valinn maður leiksins af mótshöldurum eftir fyrstu tvo leikina og Ómar Ingi Magnússon var valinn eftir leikinn gegn Ungverjum í gær. Var Sigvaldi ekki móðgaður yfir því að einhver annar fengi að vera maður leiksins?

„Jú ég var mjög móðgaður,“ sagði Sigvaldi og lét ekki slá sig út af laginu. „Ómar var geggjaður í gær og átti þetta svo sannarlega skilið. Það er gaman að sjá að aðrir geti líka tekið af skarið,“ bætti Sigvaldi við hlæjandi. 

Sigvaldi Björn Guðjónsson var valinn maður leiksins í fyrstu tveimur …
Sigvaldi Björn Guðjónsson var valinn maður leiksins í fyrstu tveimur leikjum Íslands. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Frammistaða Sigvalda hefur vakið athygli. Vallarþulurinn í MVM höllinni í Búdapest var duglegur að markaðssetja Sigvalda í gær. Kynnti hann til dæmis til leiks sem mann leiksins í fyrstu tveimur leikjum og hældi Sigvalda á hvert reipi þegar hann skoraði í leiknum.

 „Já ég heyrði það einmitt og það var óneitanlega mjög gaman að hlaupa inn í salinn og heyra þetta. Ungverjarnir markaðssetja mig vel.“

Eins og fram hefur komið er Sigvaldi eini eiginlega hægri hornamaðurinn í leikmannahópnum og hefur spilað alla leikina til þessa án þess að vera hvíldur. Er hann enn ferskur eftir þrjá leiki? 

„Maður er alltaf mjög ferskur þegar það gengur svona vel. Þá finnur maður ekki fyrir þreytu. Við þurfum að halda áfram að vinna leiki og þá helst þetta vonandi þannig. Það er geggjað að spila fyrir íslenska landsliðið núna. Okkur gengur vel og erum að spila flottan handbolta,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson í samtali við mbl.is í dag.  

mbl.is

Bloggað um fréttina