Alltaf klár á móti Dönum

Ísland vann Danmörku óvænt á EM 2020 og hér eru …
Ísland vann Danmörku óvænt á EM 2020 og hér eru Alexander Petersson og Ýmir Örn Gíslason í þeim leik. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í handknattleik, telur fulla ástæðu til bjartsýni um möguleika Íslands í milliriðli 1 á EM 2022. Fyrsti leikurinn í milliriðlinum er gegn heimsmeisturum Danmerkur í kvöld.

„Ég met möguleikana okkar góða í milliriðlinum ef maður miðar við þessa leiki og hvernig liðið hefur verið að spila. Það er leikur gegn Dönum fyrst og þeir eru náttúrlega gríðarlega sterkir. Þeir fóru létt í gegnum riðilinn, hvíldu helling af mönnum í síðasta leik og eru þá kannski búnir að fá meiri hvíld fyrir þennan leik en það á ekki að skipta neinu máli fyrir okkur.

Þú ert alltaf klár á móti Dönum. Þetta verður pottþétt hörkuleikur, þeir eru með sterkari leikmenn en Ungverjar, það er alveg klárt mál. [Niklas] Landin er í markinu og hann er einn besti markmaður í heimi en miðað við hvernig við höfum verið að spila sóknarleikinn eigum við alveg að geta farið í gegnum þessa dönsku vörn,“ sagði Patrekur í samtali við Morgunblaðið.

Þökkum Dönum fyrir

Ísland átti í nokkrum vandræðum með varnarleikinn í síðasta leik gegn Ungverjalandi á þriðjudag en vann að lokum nauman 31:30-sigur. „Auðvitað er þetta spurning með varnarleikinn hjá okkur. Mér fannst jákvætt í Ungverjaleiknum að við breyttum aðeins út af vananum þannig að við vorum ekki alltaf einhvers staðar langt úti á velli. Þó að það sé ágætisvörn og ágætiskerfi var það hárrétt ákvörðun að bakka á móti Ungverjum,“ bætti hann við og sagði það gott að Danir telji að í íslenska liðið vanti markverði og línumenn í heimsklassa.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag og var skrifuð áður en ljóst var að þrjú kórónuveirusmit væru komin upp í íslenska liðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert