Eyðileggur allt fyrir íslenska liðinu

Elvar Örn Jónsson spilar ekki gegn Dönum.
Elvar Örn Jónsson spilar ekki gegn Dönum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Bent Nyegaard, handboltasérfræðingur TV2 í Danmörku og þjálfari Fram og ÍR á árum áður, segir að kórónuveirusmitin þrjú sem komið hafa upp í íslenska landsliðshópnum á Evrópumótinu í Búdapest eyðileggi allt fyrir íslenska liðinu.

Ísland og Danmörk mætast í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar í kvöld klukkan 19.30.

„Þetta er gríðarlega svekkjandi fyrir Íslandi rétt fyrir leik þar sem liðið var þegar talið veikari aðilinn, og um leið fær Danmörk meira forskot.

Danska liðið var sigurstranglegri aðilinn en nú eru sigurlíkurnar yfirgnæfandi. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Ísland. Og nú geta komið upp fleiri smit. Þetta eyðileggur allt fyrir Íslendingunum," segir Nyegaard og útskýrir að tveir af þeim þremur sem smituðust séu lykilmenn í íslenska liðinu.

„Björgvin Páll Gústavsson er algjörlega fremsti markvörður liðsins. Í mínum augum er hann svar Íslands við Niklas Landin og hefur ráðið úrslitum fyrir liðið á EM.

Elvar Örn Jónsson hefur verið fyrsta val í miðju varnarinnar með Ými Erni Gíslasyni. Þeir hafa staðið þar saman alla keppnina og hafa verið lykilmenn fyrir hraðaupphlaupin. Elvar Örn er lykilmaður hjá Íslandi.

Ólafur Andrés Guðmundsson hefur ekki spilað svo mikið en hefur komið sterkur inn fyrir Aron Pálmarsson þegar hann hefur þurft hvíld. Það er ekkert leyndarmál að Aron hefur verið í vandræðum með að halda út heilu leikina og Ólafur hefur því verið afar mikilvægur í að leysa hann af,“ sagði Nyegaard um þremenningana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert