Hefur miklar áhyggjur af stöðunni

Guðmundur Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, var stoltur af sínu liði þrátt fyrir 24:28-tap fyrir Danmörku í milliriðli á EM í kvöld. Tapið er það fyrsta hjá íslenska liðinu á mótinu.  

„Ég er mjög ánægður með margt í leiknum. Mér fannst við spila stórkostlega megnið af fyrri hálfleik. Það kom smá kafli þar sem við vorum ekki nógu skarpir. Þeir voru samt í stórkostlegum vandræðum með okkur,“ sagði Guðmundur við RÚV eftir leik. 

„Vörnin var ekki nógu þétt í fyrri hálfleik. Við töluðum um það í hálfleik. Þeir gera bara ellefu mörk í seinni hálfleik og þá var vörnin betri. Við gerðum það því miður ekki í byrjun leiks. Okkur vantaði meiri breidd enda sex lykilmenn ekki með okkur en ég er ótrúlega stoltur af liðinu,“ bætti hann við. 

Kevin Möller kom sterkur inn í markið hjá danska liðinu og átti stóran þátt í sigrinum. Guðmundur viðurkennir að innkoma hans hafi breytt miklu. „Hún breytti mjög miklu og þeir gerðu okkur þetta erfitt. Við vorum að fara með allt of mörg dauðafæri úr hornum og tvö víti. Munurinn var ekki mikið meiri en það. Það segir sýna sögu hversu góðir við vorum.“

Fimm lykilmenn íslenska liðsins voru fjarverandi vegna kórónuveirusmita og Guðmundur hefur áhyggjur af stöðunni. „Þetta er tækifæri til að skoða menn. Vonandi fáum við ekki fleiri smit í hópinn. Við höfum miklar áhyggjur af stöðunni og það er ómögulegt að segja hvað morgundagurinn ber í skauti sér.“

mbl.is