Kemur ekki til greina að draga liðið úr keppni

Fimm leikmenn íslenska karlalandsliðsins hafa greinst með kórónuveiruna síðan í …
Fimm leikmenn íslenska karlalandsliðsins hafa greinst með kórónuveiruna síðan í gær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ekki kemur til greina að draga íslenska karlalandsliðið í handknattleik úr keppni á Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu að svo stöddu. Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við RÚV í dag.

Í gær greindust þeir Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Andrés Guðmundsson allir með kórónuveiruna.

Í dag bárust svo fréttir af því að fyrirliðinn Aron Pálmarsson sem og hornamaðurinn Bjarki Már Elísson hefðu einnig greinst með veiruna.

„HSÍ og leikmenn eru búnir að leggja gríðarlega á sig í aðdraganda mótsins,“ sagði Róbert í samtali við RÚV.

„Við fórum með leikmennina í einangrun frá öðrum janúar þegar við byrjuðum undirbúning mótsins, héldum þeim frá fjölskyldu, vinum og öllum meðan á undirbúningi stóð.

„Þó að við höldum í vonina að það séu ekki fleiri smitaðir þá vill oft vera þannig að sóttin breiðist út þannig að við munum skoða að auka breiddina,“ sagði Róbert.

Aðspurður hvort það komi til greina að draga liðið úr keppni?

Nei, það er engin umræða um það að svo stöddu,“ bætti Róbert við í samtali við RÚV.

Ísland með fimmtán menn gegn Dönum

mbl.is