„Menn þurfa að finna nokkur aukaprósent“

Ýmir Örn Gíslason í leiknum á móti Ungverjalandi.
Ýmir Örn Gíslason í leiknum á móti Ungverjalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Mbl.is spurði landsliðsmanninn Ými Örn Gíslason hvað íslenska liðið þyrfti að leggja áherslu á gegn Danmörku í fyrsta leik sínum í milliriðli 1 á EM í handknattleik í Búdapest í kvöld. 

„Í vörninni þurfum við að vera þéttir og flottir. Kannski getum við nýtt okkur eitthvað af því sem við gerðum vel í Ungverjaleiknum. Þeir hafa aðeins öðruvísi leikmenn og við þurfum að vera snöggir til baka því Danirnir keyra fram miðjuna. Nú er bara spurning um að halda okkar áætlun og nú í milliriðlinum þurfa menn að finna nokkur aukaprósent til að gefa í hvern leik. Ef það kemur eru okkur allir vegir færir,“ sagði Ýmir þegar mbl.is tók hann tali í Búdapest í gær en Ýmir hefur verið í stóru hlutverki í miðju íslensku varnarinnar á EM. 

Rétt er að taka fram að viðtalið var tekið áður en kórónuveirusmitin komu upp í íslenska landsliðshópnum.

Ýmir Örn Gíslason fer inn af línunni gegn Ungverjalandi.
Ýmir Örn Gíslason fer inn af línunni gegn Ungverjalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég er gríðarlega ánægður með að hafa farið í gegnum riðilinn og hvað þá að hafa náð í tvö stig til að taka með í milliriðilinn. Við spiluðum líka nokkuð vel í öllum þessum þremur leikjum. Kannski spiluðum við ekki fallegasta handboltann allan tímann í sókn eða vörn en á heildina litið vorum við mjög góðir og það er ekki hægt að biðja um meira en að vinna alla leikina,“ sagði Ýmir einnig. Hann fékk þrjár tveggja mínútna brottvísanir og þar af leiðandi rautt spjald á móti Ungverjalandi. Sú þriðja kom seint í leiknum og hafði því lítil áhrif og leikmenn fá ekki leikbann í handboltanum fyrir að fá rauða spjaldið vegna þriggja brottvísana. Átti Ýmir skilið að fá þessar brottvísanir? 

„Ég hafði verið í viðtali á RÚV fyrir leikinn gegn Ungverjalandi þar sem ég minntist á að ég hefði ekki fengið brottvísun í fyrstu tveimur leikjunum. Ég hefði betur sleppt því. Fyrsta brottvísunin kom eftir eina og hálfa mínútu. Það hefði kannski mátt vera gult spjald. Ég veit ekki fyrir hvað önnur brottvísunin var og hvað þá þessi númer þrjú. En það er yfirleitt eitthvað á bak við þessa dóma og ég tók það bara á mig,“ sagði Ýmir Örn Gíslason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert