Þjálfari Dana: Mjög erfiður leikur

Mikkel Hansen á vítalínunni gegn Viktori Gísla Hallgrímssyni í leiknum …
Mikkel Hansen á vítalínunni gegn Viktori Gísla Hallgrímssyni í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik, var afar sáttur með sigur sinna manna gegn Íslandi í milliriðli I á Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í Búdapest í kvöld.

Leiknum lauk með fjögurra marka sigri danska liðsins, 28:24, en Ísland var án sex lykilmanna í dag vegna kórónuveirusmita í herbúðum liðsins.

Danir eru eftir sigurinn í efsta sæti milliriðils I með 4 stig eða fullt hús stiga en Ísland er með 2 stig í fjórða sætinu.

„Þetta var mjög erfiður leikur,“ sagði Jacobsen í samtali við TV2 eftir leikinn.

„Þeir höfðu engu að tapa og taugarnar voru þandar hjá báðum liðum. Við gerðum fullt af mistökum í dag og við vorum í vandræðum.

Þeir gerðu okkur mjög erfitt fyrir þrátt fyrir að þeir hafi verið án margra lykilmanna,“ bætti Jacobsen við.

mbl.is