Varamaður Ómars langmarkahæstur

Kay Smits (31) í vörn Hollendinga gegn Íslandi.
Kay Smits (31) í vörn Hollendinga gegn Íslandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hollendingurinn Kay Smits er langmarkahæsti leikmaður Evrópumóts karla í handknattleik eftir að riðlakeppninni er lokið.

Hann skoraði 32 mörk í þremur leikjum Hollendinga, þar af þrettán í tapleiknum gegn Íslandi, og hefur skoraði tíu mörkum meira en næsti maður.

Örvhenta skyttan leikur með þýska toppliðinu Magdeburg og er þar í því hlutverki að vera varamaður fyrir íslenska landsliðsmanninn Ómar Inga Magnússon.

Austurríkismaðurinn Sebastian Frimmel er næstmarkahæstur með 22 mörk en hans lið er úr leik í keppninni.

Aidenas Malasinkas frá Litháen er þriðji með 21 mark en hann er sömuleiðis farinn heim með sínu liði eftir riðlakeppnina.

Mikkel Hansen frá Danmörku, Arkadiusz Moryto frá Póllandi, Tomás Urban frá Slóvakíu, Mikita Vailupau frá Hvíta-Rússlandi og Branko Vujovic frá Svartfjallalandi koma næstir með 20 mörk hver.

Dani Baijens frá Hollandi og Hampus Wanne frá Svíþjóð hafa skorað 19 mörk.

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Norðmaðurinn Sebastian Barthold hafa skorað 18 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert