12 ára Ýmir væri afar stoltur

Ýmir Örn Gíslason fór fyrir íslenska liðinu í gær.
Ýmir Örn Gíslason fór fyrir íslenska liðinu í gær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ýmir Örn Gíslason var fyrirliði Íslands gegn Danmörku á EM í handknattleik í gærkvöldi vegna fjarveru Arons Pálmarssonar. 

Þótt Ýmir sé ekki orðinn 25 ára gamall þá er hann kannski dæmigerður fyrirliði fyrir íslenskt landsliðs. Stemningsmaður sem gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Finnst Ýmir það ekki vera áfangi fyrir sig að fara fyrir Íslandi í leik á stórmóti?

„Jú jú vissulega. Ég er þvílíkt stoltur enda er heiður að fá það hlutverk að vera fyrirliði í þessum leik. Við deildum nú þessu hlutverki svolítið og mér fannst það takast vel en fyrir mig er auðvitað heiður að fá að leiða liðið í svona stríð,“ sagði Ýmir og blaðamaður nefnir að 12 ára gömlum Ými hefði væntanlega þótt þetta ansi merkileg tilhugsun. 

„Já alveg pottþétt. Þegar maður hugsar til baka þá sá maður það ekki fyrir sér sem raunhæft markmið að verða fyrirliði handboltalandsliðsins. En svona gerast hlutirnir.“

Ýmir Örn þakkar fyrir stuðninginn gegn Dönum en margir Íslendingar …
Ýmir Örn þakkar fyrir stuðninginn gegn Dönum en margir Íslendingar flugu út í sólarhringsferð til að hvetja liðið gegn Dönum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Þegar vængbrotið íslenskt lið náði að spila jafnan leik við Dani í mikilvægum leik þá voru eflaust margir Íslendingar stoltir af frammistöðunni og hvernig mönnum tókst að bregðast við aðstæðum með afar litlum fyrirvara. 

„Ég er alveg sammála þér. Undirbúningurinn fyrir þessa stöðu var nánast engin vegna þess að menn voru að greinast fram og til baka. Þrír á leikdegi og þrír daginn áður. Fyrir vikið var óvissan mikil og stressið í hópnum var mikið. Við töluðum um fyrir mót að við ætluðum ekki að láta neitt utanaðkomandi hafa áhrif á okkur. Hvort sem það væri kórónuveiran, meiðsli,  fjölmiðlaumfjöllun eða hvað sem er. Þegar við töluðum saman í gær þá tókum við það í raun bókstaflega. Við höfðum bullandi trú á okkur og höfum enn. Það er sama á móti Frökkum. Við förum í þennan leik á morgun til að vinna og sættum okkur ekki við neitt annað. Við eigum ennþá góða möguleika í milliriðlinum. Ef við vinnum á morgun þá er allt galopið,“ sagði Ýmir Örn Gíslason í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins í Búdapest í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert