Ekkert bendir til að EM verði blásið af

Íslendingar hafa gert sitt besta til að styðja við bakið …
Íslendingar hafa gert sitt besta til að styðja við bakið á íslenska landsliðinu í Búdapest. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Töluverðar vangaveltur eiga sér nú stað hjá handboltaáhugafólki hvort EM karla í handknattleik í Búdapest verði einfaldlega hætt vegna þess hvernig kórónuveiran hefur leikið keppendur. 

Mbl.is spurði Guðmund B. Ólafsson, formann HSÍ, hvort hann telji einhverjar líkur vera á því að EM verði blásið af vegna kórónuveirunnar. Guðmundur sagðist ekki sjá neinar vísbendingar um að slíkt sé á teikniborðinu.

Á þeim fundum sem hann hefur setið hefur ekki komist til tals að hætta leik á EM. Hann sjái því ekki fyrir sér að Handknattleikssamband Evrópu ætli sér að stöðva mótið en erfiðara sé að segja til um hver framvindan geti orðið ef smitin halda áfram að dreifa sér hjá liðunum. 

Guðmundur B. Ólafsson fyrir miðju. Sitt hvoru megin eru Róbert …
Guðmundur B. Ólafsson fyrir miðju. Sitt hvoru megin eru Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri og Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þ. Guðmundsson lýsti því á dögunum hversu undrandi Íslendingarnir hefðu orðið þegar þeim varð ljóst að almennir viðskiptavinir voru velkomnir á hótelið sem hýsir liðin sem keppa í Búdapest. 

Guðmundur formaður segir að hjá HSÍ hafi menn orðið svekktir sem og í íslenska landsliðshópnum. Einfaldlega vegna þess að menn hafi lagt á sig mikla vinnu, fyrirhöfn og kostnað til að halda landsliðinu frá veirunni í tíu daga þegar liðið undirbjó sig fyrir EM heima á Íslandi. Þá hafi menn haldið fast á málum. Þegar á keppnisstaðinn var komið hafi hins vegar önnur vinnubrögð verið viðhöfð á liðshótelinu og það hafi verið vonbrigði. Ekki sé hægt að fullyrða um hvernig smitin finni sér leið til leikmanna en augljóst sé að líkurnar á smitum aukast mjög þegar almennir gestir á hótelinu nota sama matsalinn og liðin í mótinu. Svo dæmi sé tekið. 

Björgvin Páll Gústavsson og Bjarki Már Elísson eru nú í …
Björgvin Páll Gústavsson og Bjarki Már Elísson eru nú í einangrun. Kjartan Vídó markaðsstjóri HSÍ virðist áhyggjufullur. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Spurður um hvort þann kostnað sem til verður vegna ýmissa ráðstafana sem þarf að grípa til segir Guðmundur það falla á HSÍ til að byrja með. 

Í framahaldinu hljóti EHF að koma til móts við samböndin því þeir fara fram á að menn fari í einstaklingsherbergi á hótelum sem dæmi í stað þess að tveir séu saman í herbergi eins og áður. Einnig þurfa liðin að kalla í menn til að mæta á EM í miðju móti og ýmis auka kostnaður hleðst því upp.  

mbl.is

Bloggað um fréttina