„Ótrúlega gaman að vera partur af liðinu“

Daníel Þór Ingason reynir að komast í gegnum dönsku vörnina.
Daníel Þór Ingason reynir að komast í gegnum dönsku vörnina. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Daníel Þór Ingason lék sinn fyrsta leik á EM í handknattleik í Búdapest í kvöld þegar Ísland mætti Danmörku í hörkuleik í milliriðli I þar sem Danir höfðu betur 28:24. 

„Það var ótrúlega gaman að koma inn í liðið og vera partur af þessu,“ sagði sem Daníel kom sterkur inn í vörnina sérstaklega en skoraði að auki eitt mark. Daníel lék í Danmörku um tíma og hafði gaman að því að berja á Dönunum.

„Já maður hefur spilað í dönsku deildinni og hef því spilað á móti nokkrum þessara leikmanna í danska liðinu. Það er alltaf gaman að berja Danina,“ sagði Daníel og glotti. 

Hann var um tíma í vörninni á móti Mikkel Hansen og það verður að teljast alvöru áskorun enda einn albesti leikmaður í heimi síðasta áratuginn. 

„Að sjálfsögðu. Hann er einn besti handboltamaður í heimi og það var verðugt verkefni en ég held að ég hafi komist ágætlega frá því.“

Íslenskir stuðningsmenn á leiknum gegn Dönum í kvöld.
Íslenskir stuðningsmenn á leiknum gegn Dönum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslendingar fengu lítinn tíma til að bregðast við þeim breytingum sem urðu á liðunum. Fréttir af smitum bárust í kvöldið fyrir leikinn og þrjú smit til viðbótar komu í ljós á leikdegi. Geta menn ekki verið ánægðir með frammistöðuna  gegn Dönum í ljósi þessa því leikurinn var nokkuð jafn allan tímann. 

„Ég held að við getum alveg verið sáttir. Auðvitað er margt sem við hefðum getað gert betur en við gerðum einnig margt gott. Ég verð að hrósa hópnum fyrir að tækla þetta svona. Við sem komum inn í liðið höfum verið á öllum æfingum og öllum fundum. Við erum því alveg inni í hlutunum og því þurfti í rauninni ekki mikið til að undirbúa okkur. Við misstum auðvitað út mikilvæga menn en það kemur maður í manns stað,“ sagði Daníel Þór Ingason þegar mbl.is ræddi við hann í Búdapest að leiknum loknum. 

mbl.is