Spánverjar sluppu með skrekkinn

Agustin Casado var atkvæðamestur Spánverja og reynir hér að komast …
Agustin Casado var atkvæðamestur Spánverja og reynir hér að komast í gegnum vörn Rússa. AFP

Evrópumeistarar Spánverja sluppu með skrekkinn í dag þegar þeir sigruðu Rússa, 26:25, í milliriðli Evrópumóts karla í handknattleik í Bratislava. 

Þeir eru þá komnir með sex stig úr þremur leikjum og eru nær öruggir í undanúrslitin en Rússar eru með 2 stig.

Spánverjar voru marki yfir, 12:11, eftir hnífjafnan fyrri hálfleik en í þeim seinni náðu Rússar undirtökum. Þeir komust í 16:14 og í framhaldi af því í 22:18 um miðjan seinni hálfleikinn og staða þeirra  var orðin vænleg.

Það tók Spánverja hinsvegar aðeins fimm mínútur að jafna í 23:23 og þeir komust síðan yfir í fyrsta sinn í hálfleiknum, 25:24 þegar sex mínútur voru eftir.

Á lokakaflanum skoruðu liðin ekki úr mörgum sóknum í röð. Rússar fengu boltann þegar átta sekúndur voru eftir og áttu tækifæri til að jafna. Þeir kræktu í vítakast og gátu tryggt sér stig en Igor Soroka skaut í stöng spænska marksins og Spánverjar gátu fagnað.

Augustin Casado skoraði 7 mörk fyrir Spánverja, Jorge Maqueda, Ángel Fernández og José Maria Marquez 4 mörk hver. 

Dmitrii Santalov skoraði 6 mörk fyrir Rússa og Igor Soroka 4.

mbl.is