Verður liðið með fæst smit Evrópumeistari?

Vincent Gérard í upphitun fyrir leik Frakka á EM.
Vincent Gérard í upphitun fyrir leik Frakka á EM. AFP

Vincent Gérard, markvörður frönsku ólympíumeistaranna í handknattleik karla, sagði eftir sigur þeirra á Hollendingum á Evrópumótinu í Búdapest að sennilega réði kórónuveiran mestu um hverjir stæðu uppi sem Evrópumeistarar.

„Eðlilega velta margir fyrir sér gildi keppninnar. Hér hafa komið upp 105 smit. Þjóðverjar eru ekki með Wolff, Ísland er ekki með Pálmarsson. Verður þetta keppnin þar sem sigurvegarinn verður það lið sem stendur uppi með fæst smit? 

Ef þú færð veiruna vegna eigin kæruleysis er það þitt mál. En ef þú færð hana vegna þess að hún er út um allt í keppninni, þá er þetta bara happdrætti, og mjög svekkjandi. Maður myndi vilja tala um íþróttina en nú talar maður um lítið annað en kórónuveiruna. Og sjálfir getum við ekkert kvartað," sagði Gérard í viðtali við beIN SPORTS í Frakklandi eftir sigur franska liðsins, 34:24, en hann er jafnframt forseti leikmannasamtakanna í Frakklandi.

Frakkland er næsti mótherji Íslands í milliriðlinum í Búdapest klukkan 17 á morgun. Enn sem komið er hefur aðeins einn Frakki fengið veiruna á mótinu en varnarjaxlinn Karl Konan lék ekki með gegn Hollandi í gær.

mbl.is