Frjálsíþróttagrunnurinn hjálpar á EM

Teitur Örn Einarsson skorar úr hraðaupphlaupi gegn Dönum í Búdapest.
Teitur Örn Einarsson skorar úr hraðaupphlaupi gegn Dönum í Búdapest. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson kom ferskur inn á móti Dönum á EM karla í handknattleik og lét til sín taka á lokakaflanum. 

Ísland mætir Frakklandi í dag í Búdapest í milliriðli I. „Það verður spennandi leikur. Frakkland er ein besta handboltaþjóð í heimi og hefur verið í langan tíma. Þetta verður ekki auðvelt verkefni en að sálfsögðu munum við gera allt sem við getum til að vinna,“ sagði Teitur þegar mbl.is ræddi við hann í Búdapest. 

Er mikill munur á því að mæta Dönum eða Frökkum?

„Já og nei. Þetta er allt annað lið en að vissu leyti eru þessi lið lík varðandi leikstíl. Ég veit eiginlega ekki hvað ég að á segja við því annað en að Frakkar eru allt annað lið og mjög góðir.“

Spá menn mikið í stöðuna í riðlinum eða horfa menn einungis á næsta andstæðing?

„Næsti leikur skiptir mestu máli en menn verða líka að horfa á stöðuna í riðlinum og möguleikana. Hvað við þurfum að gera til að komast lengra? Við erum í góðri stöðu þótt við höfum tapað fyrir Dönum. Þetta er mikilvægur leikur og hálfgerður úrslitaleikur þvi við verðum eiginlega að taka tvö stig til að komast áfram. En það getur alltaf allt gerst því það eru þrjár umferðir eftir í milliriðlinum og þar eru bara góð lið. En leikurinn gegn Frökkum er mikilvægur.“

Teitur Örn hvetur samherjana áfram ásamt Ágústi Jóhanssyni, Guðmundi Guðmundssyni …
Teitur Örn hvetur samherjana áfram ásamt Ágústi Jóhanssyni, Guðmundi Guðmundssyni og Viggó Kristjánssyni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Teitur Örn sagði við mbl.is áður en EM hófst að hann gæti leyst Sigvalda af í hægra horninu ef þörf væri á. Hann gerði það á lokakaflanum gegn Dönum og skoraði þá tvíegis úr hraðaupphlaupum þar sem Teitur skaust fram völlinn eins og raketta frá björgunarsveitunum. Var Teitur í frjálsum á Selfossi?

„Já ég hef frjálsíþróttagrunn að baki. Það hjálpar rosalega mikið varðandi líkamlega þáttinn og það að læra að hlaupa hratt. Kraftur og hraði er styrkleiki sem ég til mig geta komið með inn í liðið. Það gæti nýst okkur bæði í skyttu og horni. Það er ein ástæða þess að ég er hérna, að mínar styrkleikar nýtist liðinu,“ sagði Teitur en þegar hann skoraði tvívegis úr hraðaupphlaupum gegn heimsmeisturunum fékk hann hárnákvæmar sendingar frá markverðinum Ágústi Elí Björgvinssyni. Er einhver sérstök taug á milli þeirra tveggja?

„Ekki eitthvað extra. Við náðum augnkontakti þegar ég var nýlagður af stað og hann vissi bara að ég gæti hlaupið. Hann bombaði boltanum fram og ég hljóp á eftir honum,“ sagði Teitur Örn Einarsson þegar mbl.is spjallaði við hann í Búdapest. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert