„Held að mér hafi aldrei liðið svona vel“

Viktor Gísli var í miklum ham í kvöld og fagnaði …
Viktor Gísli var í miklum ham í kvöld og fagnaði geysilega eftir hverja markvörslu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Markvörðurinn ungi Viktor Gísli Hallgrímsson sprakk út gegn Frökkum á EM í handknattleik í Búdapest í kvöld og átti sannkallaðan stórleik. 

Var hann valinn maður leiksins af mótsöldurum. Þrátt fyrir að átta leikmenn séu smitaði vann Ísland sannfærandi stórsigur. „Ég get eiginlega ekki lýst því. Ég held að mér hafi sjaldan liðið svona vel,“ sagði Viktor Gísli þegar mbl.is náði tala af honum að leiknum loknum og spurði hvernig tilfinningin væri. 

Viktor var um það bil annað hvert skot sem rataði á markið í fyrri hálfleik en þá byggði Ísland upp gott forskot og lagði grunninn að sigrinum. Voru menn búnir að kortleggja hvar Frakkarnir skjóta?

 „Ég spilaði á móti þeim á HM í fyrra og þá stóð ég mig ágætlega. Ég þekki þá ágætlega en í dag lagði ég meiri áherslu á minn leik í stað þess að breyta mínum leik út frá andstæðingum. Það heppnaðist ágætlega,“ sagði Viktor og hann sagði vörnina fyrir framan hann hafa verið frábæra.

„Vörnin var geggjuð. Frakkarnir gerðu tæknimistök og mér leið eins og þeir hafi gert fleiri tæknimistök. Við skoruðum auðveld mörk um tíma í fyrri hálfleik og þá fór stemningin í gang.“

Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Í dag bættust þeir Janus Daði Smárason og Arnar Freyr Arnarsson í hóp þeirra sem eru smitaðir af kórónuveirunni. 

„Það var svolítið skrítið þegar maður sá að Arnar og Janus mættu ekki í hádegismat en maður er farinn að þekkja hvernig þetta er. Við þjöppuðum okkur saman og Maggi [Magnús Óli Magnússon] og Viggi [Vignir Stefánsson] komu inn í hópinn. Flottir strákar og okkur tókst að halda einbeitingu.“

Viktor Gísli Hallgrímsson freistar þess að verja víti.
Viktor Gísli Hallgrímsson freistar þess að verja víti. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Viktor Gísli er ekki farinn að velta fyrir sér framhaldinu í keppninni að neinu ráði. Blaðamaður hefur orð á því að íslenska liðið geti enn komist í undanúrslit þótt átta leikmenn séu smitaðir. 

„Já en við horfum bara á næsta leik. Við getum kannski hugsað um þennan leik til miðnættis en svo er það bara næsti leikur. Þessi leikur var bónus en við þurfum að vinna fleiri leiki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert