Ómar þriðji markahæstur á EM

Ómar Ingi Magnússon sækir að marki Frakka í leiknum í …
Ómar Ingi Magnússon sækir að marki Frakka í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ómar Ingi Magnússon er orðinn þriðji markahæsti leikmaður Evrópumóts karla í handknattleik í Ungverjalandi og Slóvakíu eftir að hann skoraði tíu mörk gegn ólympíumeisturum Frakka í Búdapest í dag.

Ómar hefur átt stigvaxandi gengi að fagna á mótinu sem sést í markaskorinu. Hann skoraði þrjú mörk í fyrsta leik gegn Portúgal, fjögur í næsta leik gegn Hollandi, átta í þriðja leiknum gegn Ungverjalandi, aftur átta í fjórða leik gegn Danmörku og nú tíu mörk gegn Frökkum.

Samherji hans og í raun varamaður hans hjá Magdeburg, Kay Smits,  er langmarkahæsti maður mótsins með 45 mörk fyrir Hollendinga.

Pólverjinn Arkadiusz Moryto er annar með 34 mörk og síðan kemur Ómar Ingi með 33 mörk í þriðja sæti. Jafn honum er Branko Vujovic frá Svartfjallalandi með 33 mörk.

Næstu menn eru síðan þrír Norðurlandabúar, Daninn Mikkel Hansen, Norðmaðurinn Sebastian Barthold og Svíinn Hampus Wanne, sem hafa skorað 32 mörk hver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert