Íslendingar geta keyrt yfir þig á þremur mínútum

Íslenska liðið fagnar stórsigrinum á Frökkum.
Íslenska liðið fagnar stórsigrinum á Frökkum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Getur Króatía stöðvað þetta frábæra íslenska lið? Þessari spurningu er velt upp á heimasíðu króatíska handknattleikssambandsins.

Króatar mæta stigalausir til leiks gegn Íslandi í Búdapest á morgun og verða að vinna leikinn til að eygja möguleika á að ná þriðja sæti milliriðilsins, og þar með keppnisrétti um fimmta sætið sem gefur sæti á næsta heimsmeistaramóti. Leikur liðanna hefst klukkan 14.30.

Í umfjöllun á heimasíðunni er árangurinn stuttlega rakinn og sagt að nú gerist það aðeins í annað sinn á tuttugu árum að Króatía verði ekki í undanúrslitum Evrópumótsins. Liðið hafi þó sýnt gegn Danmörku (í 27:25 tapi) að liðið geti spilað frábæran handbolta. En spurningin sé hvort liðið geti endurtekið það gegn þeim tveimur liðum sem hafa komið mest á óvart á Evrópumótinu, Íslandi og Hollandi. Króatar hafi ávallt unnið Íslendinga.

Íslenska liðið er eins og vél

„En Ísland eins og við þekktum það er ekki á þessu Evrópumóti. Þetta íslenska lið er stórkostlegt nútímalið, nánast eins og vél. Ef þú gefur Íslendingunum færi á þér munu þeir valta yfir þig á þremur mínútum og þú munt ekki vita hvort þú varst að koma eða fara. Eins og Frakkar, sem voru sigraðir með átta marka mun og biðu sinn stærsta ósigur á EM," segir í greininni.

„Íslendingarnir eru svo fljótir að besta vörn í heimi gat ekki stöðvað þá. Þeir skoruðu 17 mörk í fyrri hálfleik, og 29 í leiknum í heild. Það hafði enginn áður gert gegn Frökkum á þessu móti," segir ennfremur.

Líkja Viktori við Omayer

Bent er á að Íslendingarnir séu ekki í allrabestu liðum heims, eins og Barcelona, Kiel, Veszprém eða PSG. Þeir spili með Magdeburg, Göppingen, Melsungen, RN Löwen, Val, GOG og Aalborg. „En þeir eru ótrúlega góðir. Hraði, nákvæmni í sendingum, grimmd, einfaldleiki og hraðaupphlaup, allt þetta er útfært á fullkominn hátt," segir í greininni og bent á að goðsögnin Björgvin Páll Gústavsson hafi ekki varið markið gegn Frökkum heldur hinn 21 árs gamli Viktor Hallgrímsson, leikmaður GOG í Danmörku, sem verði samherji Ivans Pesic hjá Nantes næsta vetur. Hann hafi rústað ólympíumeisturunum og taktar hans hafi minnt á hinn magnaða Frakka Thierry Omeyer.

Ómari Inga Magnússyni er lýst sérstaklega sem stjörnu liðsins en það sé skipað fjölmörgum gríðarlega hæfileikaríkum og kraftmiklum leikmönnum. Með tvo markverði og tólf útispilara hafi liðið malað Frakka.

„Við vonum að þetta verði ekki svona auðvelt fyrir þá gegn Króatíu. Þeir gáfu okkur og heiminum viðvörun í tæka tíð. Og sagt er að þeir klóku læri af mistökum annarra," segir í lok greinarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert