Kóvid-lið Íslands lék sér að óþekkjanlegum Frökkum

Frakkar voru niðurdregnir í leikslok í Búdapest í kvöld.
Frakkar voru niðurdregnir í leikslok í Búdapest í kvöld. AFP

Ósigur frönsku ólympíumeistaranna gegn Íslendingum í Búdapest í dag er gríðarlegt reiðarslag fyrir þá og gerir að verkum að Frakkar þurfa nú að treysta á að Íslendingar tapi stigum svo þeir geti komist í undanúrslit mótsins.

Franski handboltamiðillinn Handnews segir að þrátt fyrir mikil afföll vegna kóvid hafi íslenska liðið gjörsamlega haft óþekkjanlegt lið Frakka í vasanum í leiknum í Búdapest og sé komið með undirtökin í baráttunni um sæti í undanúrslitum. Nú þurfi Frakkar sex marka sigur gegn Dönum til að eiga virkilega möguleika.

Handnews bendir á að þjálfari Frakka, Guillaume Gille, sé úr leik vegna kórónuveirusmits og Kentin Mahé og Ludovic Fabregas hafi heldur ekki getað leikið með. En slík forföll skipti engu máli í samhenginu því Ísland hafi leikið án átta smitaðra leikmanna.

Handnews segir að frönsku leikmennirnir hafi ekkert ráðið við Ómar Inga Magnússon og þeir Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður og Viggó Kristjánsson hafi líka verið í stórum hlutverkum.

Örvhentar skyttur Íslands hafi herjað á frönsku vörnina og markverðina úr öllum áttum og þá hafi frönsku leikmennirnir átt í gríðarlegum erfiðleikum með að finna glufur á hinni afar hreyfanlegu íslensku vörn, sem hafi haft hinn efnilega Viktor Gísla fyrir aftan sig með 47 prósent markvörslu í fyrri hálfleik.

mbl.is