Ræddi við Guðmund í fyrsta skipti á EM

Þráinn Orri Jónsson
Þráinn Orri Jónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Línumaðurinn Þráinn Orri Jónsson hjá Haukum tók síðast þátt á landsliðsæfingum þegar Geir Sveinsson var landsliðsþjálfari fyrir nokkrum árum. Fyrir fáum vikum síðan var hann smitaður af kórónuveirunni en nú er hann mættur á EM í handknattleik í Búdapest eftir að smitum fjölgaði frekar í íslenska hópnum. 

Um átta tímum eftir að hringt var í Þráinn úr herbúðum íslenska liðsins í Búdapest var hann kominn um borð í flugvél. 

„Ég var í hrókasamræðum við kærustuna mína í gær þegar ég heyrði símann víbraði. Ég „ghostaði“ hringinguna eins og ungdómurinn segir í það. Einar Jónsson [sem lengi hefur þjálfað hjá Haukum] sendi mér skilaboð og bað mig að hringja strax í sig. Ég gerði það og hann sagði mér að Gunni Magg [aðstoðarlandsliðsþjálfari] vilji heyra í mér. Gunni sagði mér að Arnar [Frey Arnarsson] sé með öll einkenni og allar líkur séu á því að hann sé smitaður af kórónuveirunni. Þeir vilji fá mig út til Búdapest.

Ég spurði bara hvenær og hann sagði að það þyrfti helst að vera í dag eða í kvöld [í gær laugardegi]. Svo fór atburðarásin í gang. Ég fór í PCR próf, náði í tösku á HSÍ og var nánast mættur út á flugvöll áður en ég vissi af. Frá símtalinu og þar til ég var kominn upp í vél var um átta tímar,“ sagði Þráinn þegar mbl.is náði tali af honum í Búdapest í dag. Stutt er síðan hann glímdi við veiruna.

„Ég fékk veiruna fyrir tveimur vikum síðan. Ég var heima í viku og mætti á æfingu hjá Haukum í síðustu viku. Það smituðust nokkrir í liðinu hjá okkur. Ég er tiltölulega nýlega laus því á morgun eru tvær vikur síðan ég fékk jákvæða niðurstöðu úr PCR prófi.“

Guðmundur Þ. Guðmundsson og Gunnar Magnússon.
Guðmundur Þ. Guðmundsson og Gunnar Magnússon. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Þráinn hefur verið skoðaður á æfingum af landsliðsþjálfurum í gegnum tíðina án þess að brjóta sér leið inn í landsliðið. Hann lék um tíma með Elverum í Noregi sem er sterkt félagslið frá 2017-2019 og tók eitt tímabil í Danmörku með Bjerringbro-Silkeborg. Hvenær var Þráinn síðast í æfingatörn með landsliðinu? 

„Úfff það er góð spurning. Þegar Aron Kristjáns var landsliðsþjálfari þá sagði hann mér að hætta þessu skyttukjaftæði og spila sem línumaður í staðinn. Síðan þá eru liðin tæp átta ár held ég. Síðast var ég á landsliðsæfingu þegar ég var leikmaður Elverum og þá var Geir Sveinsson landsliðsþjálfari. Það er því komið nokkuð síðan,“ sagði Þráinn og hann hefur þá aldrei unnið með Guðmundi Þ. Guðmundssyni eða hvað?

„Í dag hitti ég hann í fyrsta skipti augliti til auglitis. Ég hafði aldrei átt samræður við hann. Það er auðvitað spennandi enda heimsklassaþjálfari og ég er mjög spenntur fyrir þessu. Hvort sem ég fer til baka á fimmtudaginn eða um helgina eða eftir helgina þá ætla ég að njóta þess að fá að vera hérna með þessum leikmönnum og þessum þjálfurum.“

mbl.is