Missir af leiknum gegn Íslandi

Mirko Alilovic reynir að verja vítakast frá Mikkel Hansen í …
Mirko Alilovic reynir að verja vítakast frá Mikkel Hansen í leiknum á laugardag. AFP

Mirko Alilovic, markvörður króatíska karlalandsliðsins í handknattleik, verður fjarri góðu gamni þegar Ísland og Króatía mætast í milliriðli I á Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í Búdapest í dag.

Alilovic, sem er 36 ára, meiddist í leik Króatíu og Danmerkur á laugardaginn og hefur hann snúið aftur til félagsliðs síns Pick Szeged í Ungverjalandi.

Markvörðurinn var kallaður inn í landsliðshópinn fyrir milliriðlakeppnina eftir að nokkrir leikmenn króatíska liðsins greindust með kórónuveiruna.

Hann lagði landsliðsskóna á hilluna árið 2018 en ákvað að hlaupa í skarðið og hjálpa liðinu á EM 2022 vegna kórónuveirusmita hjá liðinu.

Króatar hafa þegar notað fimm markverði á mótinu. Ivan Pesic hefur náð að spila fjóra leiki af fimm og Mate Sunjic þrjá.

mbl.is