Stórsigur Frakka sem nægir jafntefli við Dani

Dika Mem var atkvæðamikill fyrir Frakka í kvöld og skorar …
Dika Mem var atkvæðamikill fyrir Frakka í kvöld og skorar hér eitt marka sinna. AFP

Frakkar unnu afar sannfærandi sigur á Svartfellingum, 36:27, í lokaleik dagsins í milliriðli eitt á Evrópumóti karla í handknattleik í Búdapest.

Þar með er staðan þannig fyrir lokaumferðina á miðvikudag að Danmörk er með 8 stig, Frakkland 6, Ísland 4, Holland 2, Svartfjallaland 2 og Króatía 2 stig.

Danir eru komnir í undanúrslit eftir sigur á Hollendingum í dag en Frakkar og Íslendingar berjast um að fylgja þeim þangað. Vinni Íslendingar Svartfellinga fara þeir áfram ef Danir sigra Frakka. Hinsvegar nægir Frökkum stig gegn Dönum til að fylgja þeim í undanúrslitin.

Svartfellingar geta hinsvegar enn náð þriðja sætinu af Íslendingum, takist þeim að vinna leik liðanna á miðvikudaginn og Hollendingar vinna ekki Króata.

Leikur Frakka og Svartfellinga var jafn framan að, eða þar til skammt var eftir af fyrri hálfleik. Þá breyttu Frakkar stöðunni úr 11:11 í 16:12 og lögðu grunninn að sigrinum. Þeir fylgdu því eftir með því að ná fljótt góðu forskoti í seinni hálfleik. Fljótlega munaði tíu mörkum á liðunum og bara formsatriði að ljúka leiknum.

Dika Mem skoraði 7 mörk fyrir Frakka, Yanis Lenne, Aymeric Minne, Nicolas Tournat, Nikola Karabatic og Benoit Kounkoud 4 hver.

Milos Vujovic skoraði 7 mörk fyrir Svartfellinga, Marko Lasica og Branko Vujovic 5 hvor.

mbl.is