Gamlir keppinautar mætast í lokaumferðinni

Alfreð Gíslason á bekknum hjá Þjóðverjum á EM í Bratislava.
Alfreð Gíslason á bekknum hjá Þjóðverjum á EM í Bratislava. AFP

Velimir Petkovic og Alfreð Gíslason, tveir af reyndustu þjálfurum úr þýska handboltanum, mætast í dag þegar Rússland og Þýskaland eigast við í lokaumferð milliriðlakeppni Evrópumótsins í Bratislava.

Leikurinn hefur í sjálfu sér enga þýðingu og aðeins stoltið í húfi en ljóst er að hvorugt liðanna getur endað ofar en í fjórða sæti milliriðilsins og þau ljúka bæði keppni á mótinu í dag. Rússar eru með þrjú stig og Þjóðverjar tvö.

„Engir þjálfarar í þýsku Bundesligunni eiga fleiri leiki en við Alfreð og við erum mjög góðir vinir," sagði Petkovic, þjálfari rússneska landsliðsins, við heimasíðu mótsins en hann þjálfaði áður lið Wetzlar, Göppingen og Füchse Berlín á meðan Alfreð þjálfaði Hameln, Magdeburg, Gummersbach og Kiel.

Þá er bent á að það sé Alfreð að þakka að Petkovic hafi fengið starfið sem landsliðsþjálfari Rússlands árið 2020. Alfreð hafi verið búinn að gera munnlegt samkomulag við rússneska handknattleikssambandið um að taka við landsliðinu  í febrúar það ár en þá hafi Þjóðverjar gripið inn í og ráðið Alfreð til sín. Í framhaldi af því hafi Petkovic verið ráðinn til Rússa, sem hafi tekið miklum framförum undir hans stjórn síðustu tvö árin.

mbl.is