„Gerum ekki ráð fyrir neinu“

Ýmir Örn Gíslason fer inn af línunni gegn Króatíu í …
Ýmir Örn Gíslason fer inn af línunni gegn Króatíu í gær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Samkvæmt tíðindum dagsins er línumaðurinn Elliði Snær Viðarsson kominn í einangrun eftir að hafa greinst jákvæður í hraðprófi. 

Elliða verður ef fram heldur sem horfir sárt saknað gegn Svartfjallalandi á morgun þegar Ísland spilar síðasta leik sinn í milliriðli I og þann sjöunda á EM í Búdapest en Elliði hefur leikið vel í vörninni í undanförnum leikjum.  

Elliði og Ýmir Örn Gíslason hafa verið vopnabræður í miðri vörninni í milliriðlinum og virðast ná sérlega vel saman ef rýnt er í ljósmyndir og sjónvarpsmyndir af þeim félögum. Mbl.is spurði Ými í dag hvort ekki væri búið að höggva hann til helminga með því að setja Elliða í einangrun?

„Nei nei ég fæ bara nýjan helming við mig núna. Það er ekkert annað í stöðunni. Það var frábært að spila með Elliða á meðan það entist. Ég byrjaði með Elvari [Erni Jónssyni] í vörninni í fyrsta leik og svo spilaði ég með Arnari [Frey Arnarssyni] og svo hefur það verði Elliði í síðustu leikjum. Svo er það næsti maður og ég mun smella með honum líka,“ sagði Ýmir og bætti við varðandi samvinnu hans og Elliða: 

Ýmir Örn Gíslason og Elliði Snær Viðarsson fallast í faðma …
Ýmir Örn Gíslason og Elliði Snær Viðarsson fallast í faðma en hafa nú verið aðskildir. Elliði er kominn í einangrun eins og Daníel Þór Ingason sem er í bakgrunni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég held við séum báðir jafn miklir vitleysingar þegar kemur að því að æsa aðra upp. Ég held að það sé heldur ekkert gaman að spila á móti okkur, sama hver það er. Við deilum því og mér finnst æðislegt að spila með Elliða því hann er baráttuhundur.“

Gæti Elvar Örn spilað gegn Svartfjallalandi?

Elvar Örn lék með Ými í miðri vörninni til að byrja með og þeir hafa spilað saman allnokkra leiki á stórmótum síðustu ára. Elvar smitaðist um leið og Björgvin og Ólafur Guðmundsson fyrir sex dögum síðan. Er von til þess að Elvar Örn fái leikheimild gegn Svartfjallalandi? 

„Við leikmenn erum ekki að bíða eftir slíku. Við getum bara ekki leyft okkur að hugsa þannig. Þeir sem eru leikfærir verða að vera tilbúnir í slaginn. Hver einasti sem kemur inn núna er bara þvílíkur plús fyrir okkur. Það er ekkert leyndarmál. Hver einasta hönd eða hver einasti fótur sem getur hjálpað. En við gerum ekki ráð fyrir neinu og nálgumst það þannig en vonum það besta. Ég veit bara ekki mikið meira en þú um hvernig þessi gildi virka.“

Elvar Örn Jónsson í leiknum á móti Hollandi í riðlakeppninni.
Elvar Örn Jónsson í leiknum á móti Hollandi í riðlakeppninni. Ljósmynd/Szilvia Micheller


Menn sem spila í íslensku deildinni hafa komið fljúgandi út til Búdapest frá Íslandi og beint inn í mikilvæga leiki á EM. Sumir þeirra hafa strax komið við sögu í leikjunum. Getur Ýmir útskýrt hversu erfitt það er fyrir þessa leikmenn að standa sig við slíkar aðstæður? 

„Ég held að það sé ógeðslega erfitt að koma inn í þetta núna og þurfa að spila stóra rullu þegar menn vita hvað er undir. Það er möguleiki á að komast í undanúrslit ef allt gengur upp. Það er miklu meira undir heldur en hinn venjulegi íþróttaáhugamaður gerir sér grein fyrir. Þetta er eitthvað sem menn hafa stefnt að síðan þeir var litlir. Við reynum okkar allra besta við að koma mönnum inn í leikkerfin. Stundum reynum við einnig að breyta eftir þörfum leikmanna.

Síðast komu tveir nýir inn og við sem spilum í miðri vörninni tökum léttan fund á eftir og reynum að finna út hvernig við viljum leysa ákveðnar stöður þegar þær koma upp. Við reynum að hafa þetta breytilegt og spila inn á styrkleika þeirra sem koma inn hverju sinni,“ sagði Ýmir Örn Gíslason sem verið hefur fyrirliði í síðustu leikjum í fjarveru Arons Pálmarssonar sem smitaðist 20. janúar, degi á eftir Björgvini, Elvari Erni og Ólafi. 

Þráinn Orri Jónsson er stóð og stæðilegur varnarmaður. Hann kom …
Þráinn Orri Jónsson er stóð og stæðilegur varnarmaður. Hann kom út fyrir leikinn gegn Króatíu. Kemur hann við sögu á morgun eftir að Elliði er dottinn út? Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert