Mega spila gegn Íslandi og Danmörku

Dómarinn rekur Vincent Gérard af velli eftir brotið á Vujovic.
Dómarinn rekur Vincent Gérard af velli eftir brotið á Vujovic. AFP

Aganefnd Handknattleikssambands Evrópu úrskurðaði í dag að Vincent Gérard, markvörður Frakka, og Vasko Sevaljevic, leikmaður Svartfjallalands, færu ekki í leikbann vegna rauðra spjalda sem þeir fengu í viðureign þjóðanna á EM í Búdapest í gærkvöld.

Gérard hljóp fram á völlinn og braut á Milos Vujovic sem var í hraðaupphlaupi, og fékk rauða spjaldið í fyrri hálfleiknum. Um svipað leyti var Sevaljevic rekinn af velli fyrir að slá í andlitið á Nikola Karabatic.

Úrskurður aganefndarinnar var á þá leið að í hvorugu tilviki hefði verið um ásetningsbrot að ræða og því færu þeir ekki í bann.

Sevaljevic getur því spilað með Svartfjallalandi gegn Íslandi á morgun og Gérard getur varið mark Frakka gegn Dönum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert