„Þessi úrslit eru ógeðslega svekkjandi,“ sagði hornamaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn gegn Króatíu á EM í handknattleik í Búdapest.
Sigvaldi skoraði fimm mörk í leiknum en það dugði ekki því Króatía vann naumlega 23:22.
„Mér fannst að við hefðum átt að vinna þennan leik. Þess vegna er þetta enn meira svekkjandi. Við áttum möguleika á að koma okkur í góða stöðu með því að vinna tvo síðustu leikina í milliriðlinum. En nú þurfum við að treysta á aðra til að eiga möguleika að komast í undanúrslitin.“
Sigvaldi hefur leikið alla sex leikina til þessa í mótinu og hefur fengið mjög litla hvíld en Teitur leysti hann stuttlega af á móti Dönum. Finnur Sigvaldi ekki fyrir þreytu?
„Auðvitað er maður þreyttur en maður vill spila og maður þarf að hugsa vel um sig,“ sagði Sigvaldi Björn við mbl.is.