Spánn yrði mótherji Íslands í undanúrslitum

Ríkjandi Evrópumeistarar Spánverjar fagna sæti í undanúrslitum.
Ríkjandi Evrópumeistarar Spánverjar fagna sæti í undanúrslitum. AFP

Spánn endaði í efsta sæti milliriðils II sem leikinn var í Bratislava á Evrópumóti karla í handknattleik sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Þá endaði Svíþjóð í öðru sæti riðilsins en bæði Spánn og Svíþjóð eru komin áfram í undanúrslit. Noregur þarf að gera sér það að góðu að leika um 5. sætið eftir að hafa endað í þriðja sæti riðilsins.

Spánverjar mæta liðinu sem endar í öðru sæti milliriðils I í undanúrslitum í Búdapest á föstudag en það verður annaðhvort Danmörk, Frakkland eða Ísland. Ísland er með fjögur stig fyrir leiki morgundagsins.

Það er mikið undir hjá íslenska liðinu á morgun gegn …
Það er mikið undir hjá íslenska liðinu á morgun gegn Svartfjallalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Fimmta sæti riðilsins mögulega niðurstaða

Ísland þarf að treysta á að Danmörk vinni Frakkland í lokaleik liðanna í milliriðlakeppninni í Búdapest á morgun og á sama tíma þarf Ísland að leggja Svartfjallaland að velli til þess að komast í undanúrslitin. Frökkum dugar hins vegar jafntefli gegn Danmörku til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Ísland getur aldrei endað ofar en í öðru sæti í milliriðli I en takist Íslandi að vinna Svartfjallaland og Frakkland vinnur Danmörku, eða liðin gera jafntefli, mun Ísland enda í þriðja sæti milliriðils I. Þá myndi íslenska liðið mæta Noregi í leik um fimmta sætið í Búdapest á föstudag þar sem sæti á HM 2023, sem fram fer í Póllandi og Svíþjóð, er í boði.

Ísland gæti hins vegar endað í fimmta og næstneðsta sæti milliriðils I með óhagstæðum úrslitum á morgun en þá þyrfti liðið að tapa gegn Svartfjallalandi og Króatía að vinna Holland. Fari svo að Holland vinni Króatíu en Ísland tapi með þremur mörkum gegn Svartfjallalandi eða meira mun Ísland einnig enda í fimmta sæti riðilsins, annars í fjórða sæti ef liðið tapar með einu eða tveimur mörkum.

mbl.is