Íslendingar eru með ótrúlegt lið

Zoran Roganovic þjálfari Svartfjallalands ræðir við Nebojsa Simic markvörð.
Zoran Roganovic þjálfari Svartfjallalands ræðir við Nebojsa Simic markvörð. AFP

Nebojsa Simic, litríkur markvörður Svartfjallalands og samherji tveggja íslensku landsliðsmannanna, sagði eftir ósigurinn gegn Íslandi á EM í handbolta í dag að Ísland væri með ótrúlegt lið.

„Þeir eru með ótrúlegt lið og nokkrir leikmenn hafa komið inn í liðið og spilað á afar háu plani. Íslendingar hafa glímt við mikil vandamál á þessu móti en það gat maður aldrei séð á þeim. Það var aldrei eins og þá skorti kraft, þeir héldu bara áfram að berjast,“ sagði Simic við heimasíðu mótsins.

Hann leikur með þeim Elvari Erni Jónssyni, Arnari Frey Arnarssyni og Alexander Peterssyni með Melsungen í Þýskalandi og var því um skeið undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar. Áður var Simic samherji Ólafs Guðmundssonar hjá Kristianstad í Svíþjóð.

„Íslendingarnir eru líka reyndari en við, þeirra landslið hefur margoft spilað hörkuleiki í milliriðlum. Þetta var hinsvegar frumraun okkar á þessu sviði og reynslan hafði mikið að segja,“ sagði Simic sem fékk tveggja mínútna brottvísun í leiknum fyrir að mótmæla kröftuglega marki sem Ómar Ingi Magnússon skoraði. Simic sýndi með miklu látbragði að Ómar hefði verið lentur en dómurum leiksins var ekki skemmt og sendu hann beint í skammarkrókinn.

Hornamaðurinn knái Milos Vujovic sem skoraði 11 mörk tók í sama streng og hrósaði íslenska liðinu. „Þeir voru virkilega góðir og eldfljótir. Þeir skoruðu úr öllum stöðum á vellinum, þeir eru greinilega á mjög góðri leið og ég óska þeim gæfu og gengis í framtíðinni,“ sagði Vujovic sem er í hópi markahæstu leikmanna mótsins.

mbl.is