Kannski gerast kraftaverk

Guðmundur Þórður Guðmundsson á hliðarlínunni í dag.
Guðmundur Þórður Guðmundsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég er orðlaus yfir þessari frammistöðu,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við RÚV eftir sigur liðsins gegn Svartfjallalandi í lokaumferð milliriðli I í Búdapest á Evrópumótinu sem fram fer Ungverjalandi og Slóvakíu í dag.

Leiknum lauk með 34:24-sigri Íslands sem er öruggt með þriðja sæti milliriðils I og leik um fimmta sæti mótsins en fari svo að Danir vinni Frakka í kvöld í lokaleik milliriðlakeppninnar er Ísland komið áfram í undanúrslit.

„Ég er fyrst og fremst þakklátur og stoltur yfir framlagi leikmannanna sem voru algjörlega stórkostlegir. Ég á varla til orð til að lýsa því hversu ótrúlegir strákarnir voru sem eru búnir að vera í einangrun undanfarna daga.

Þeir eru búnir að vera lokaðir inn í sjö daga í litlu hótelherbergi, komast ekki út, geta ekki æft, þannig að þeirra frammistaða var stórkostleg og verður lengi í minnum höfð.

Annars var leikur okkar í dag einstaklega vel útfærður, agaður, leikmennirnir voru afar útsjónarsamir og leikplanið gekk fullkomlega upp,“ sagði Guðmundur.

Bjarki Már Elísson snéri aftur í íslenska liðið í dag …
Bjarki Már Elísson snéri aftur í íslenska liðið í dag og átti stórleik. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Breyttu varnarleiknum

Íslenska liðið fékk einungis á sig sjö mörk í fyrri hálfleik en staðan var 17:8, Íslandi í vil, í hálfleik.

„Við breyttum varnarleiknum aðeins fyrir leikinn gegn þessum andstæðingi enda með góðar skyttur. Ef maður mætir þeim ekki framarlega þá er erfitt að stoppa þá í skotunum. Við tókum stórskytturnar þeirra alveg úr sambandinu og við leystum í raun allt það sem þeir höfðu upp á að bjóða sóknarlega.

Það komu nýir menn inn í hálfleik sem voru algjörlega frábærir líka eins og Magnús Óli og Þráinn sem er eru ekki einu sinni búnir að ná heilli æfingu með okkur. Við erum með gott leikplan og leikmennirnir vita út á hvað þetta gengur þannig að það er kannski auðveldara að koma inn í núna en oft áður.“

Gísli Þorgeir Kristjánsson er einn þeirra leikmanna sem er í …
Gísli Þorgeir Kristjánsson er einn þeirra leikmanna sem er í einangrun vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Andlegt álag á þá smituðu

Guðmundur vonast til þess að fleiri leikmenn sem hafa smitast af kórónuveirunni snúi aftur í íslenska hópinn á næstu dögum.

„Ég sagði drengjunum fyrir leikinn að það væri enginn morgundagur og að við þyrftum fyrst og fremst að gefa allt í þennan leik í dag. Berjast til síðasta blóðdropa og það gerðum við. Núna tekur við smá slökun og við þurfum að ná okkur niður.

Kannski koma fleiri leikmenn inn í hópinn, ef við erum heppnir, fyrir næsta leik og það eru nokkrir alveg við það að sleppa yfir þennan CTR-þröskuld svokallaða. Þeir eru einkennalausir og tilbúnir að koma inn á völlinn. Þetta er gríðarlegt andlegt álag á þá og það er í raun verið að taka af þeim drauminn um að spila á EM.

Kannski gerast kraftaverk og Danir vinna Frakka en ef ekki þá förum við að fullum krafti inn í þennan leik um fimmta sætið,“ bætti landsliðsþjálfarinn Guðmundur Þórður Guðmundsson við í samtali við RÚV.

Íslenska liðið fagnar eftir sigurinn í dag.
Íslenska liðið fagnar eftir sigurinn í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is