Sigvaldi spilar mest og hleypur mest

Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur sjaldan farið af velli í leikjum …
Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur sjaldan farið af velli í leikjum Íslands. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur spilað mest allra leikmanna á Evrópumóti karla í handknattleik í Ungverjalandi og Slóvakíu og hann er líka sá leikmaður sem hefur hlaupið mest á mótinu.

Sigvaldi hefur leikið 400 af 420 mínútum Íslands í leikjunum sjö á EM og það er 24 mínútum meira en næsti maður, Pólverjinn Arkadiusz Moryto, sem lék í 376 mínútur á mótinu. Þriðji er svo Milos Vujovic, hornamaðurinn snjalli hjá Svartfjallalandi sem skoraði ellefu mörk gegn Íslandi í dag, en hann lék í 356 mínútur.

Ómar  Ingi Magnússon er í tólfta sæti á mínútulistanum en hann hefur leikið í 312 mínútur og Ýmir  Örn Gíslason er í 22. sæti með 277 mínútur inni á vellinum.

Þegar kemur að hlaupunum hefur Sigvaldi skeiðað fram og til baka á hægri kanti íslenska liðsins allt mótið og lagt að baki samtals 33,44 kílómetra samkvæmt tölfræði mótsins.

Um það bil hálfum öðrum kílómetra lengra en næsti maður, Milos Vujovic, áðurnefndur hornamaður Svartfjallalands, sem hefur hlaupið 31,93 kílómetra.

Þriðji er svo Pólverjinn áðurnefndi, Arkadiusz Moryto, með 30,95 kílómetra.

Ómar Ingi er í þrettánda sæti í hlaupunum með 24,9 kílómetra og Ýmir Örn er í 25. sæti með 21,03 kílómetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert