Er ennþá langt niðri

Bjarki sendir boltann í netið hjá Hollendingum á EM.
Bjarki sendir boltann í netið hjá Hollendingum á EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Vinstri hornamaðurinn Bjarki Már Elísson segist ekki hafa jafnað sig almennilega eftir spennuna í leik Dana og Frakka á EM karla í handknattleik og vonbrigðin sem fylgdu í kjölfarið fyrir íslensku landsliðsmennina. 

Íslensku landsliðsmennirnir voru svo nálægt því að komast í undanúrslitin. Geta þeir rifið sig upp fyrir leikinn um fimmta sætið þar sem sæti á HM 2023 er í húfi? 

„Það kemur bara í ljós. Ég get bara talað fyrir mig að ég er ennþá langt niðri eftir þetta í gær af því að ég trúði því að við færum áfram. Þess vegna er þetta extra svekkjandi. En jú á morgun þegar er leikdagur og við erum komnir í höllina þá verður það ekkert mál. Við viljum sigla þessu HM sæti heim,“ sagði Bjarki þegar mbl.is ræddi við hann í dag. 

Bjarki Már Elísson sýnir gegn Ungverjum að hann getur einnig …
Bjarki Már Elísson sýnir gegn Ungverjum að hann getur einnig varið skot í hávörn. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Norska liðið hefur verið sterkt á siðustu stórmótum og var einnig mjög nálægt því að komast í undanúrslit. 

„Þetta er þeirra gullkynslóð á meðan við erum að búa til nýja. Hún er í mótun hjá okkur. Norðmennirnir eru rútíneraðir og hafa spilað lengi sama. Noregur er gott lið og við þurfum að stoppa hraðaupphlaupin hjá þeim til að geta unnið þá. Við þurfum að bremsa Sagosen af og held að við eigum bara góða möguleika að vinna,“ sagði Bjarki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert