Landsliðshópurinn fær ekki niðurstöðurnar

Guðmundur Þ. Guðmundsson er þakklátur fyrir stuðninginn á EM.
Guðmundur Þ. Guðmundsson er þakklátur fyrir stuðninginn á EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, skýrði frá því í dag að íslenska hópnum hafi ekki borist niðurstöður í dag um það hvort einhverjir þeirra sem komu að leiknum gegn Svartfjallalandi í gær hafi smitast af kórónuveirunni. 

Á morgun mætast Ísland og Noregur í Búdapest í leik um 5. sæti á EM. 

„Norðmenn eru með mjög gott lið. Það er enginn vafi á því. Þeir eru eitt besta lið heims að mínu mati, kannski á meðal þeirra fimm bestu. Það er hörkuvefni og ég hlakka bara til. Við vonumst til að einhverja leikmenn til viðbótar úr einangrun svo hægt sé að þétta raðirnar. Við erum ennþá að bíða eftir niðurstöðum úr prófum frá því í gær. Þetta er með ólíkindum. Niðurstöðurnar hafa ekki borist vegna bilunar á rannsóknarstofunni. Þetta er eiginlega orðið algerlega út úr kú,“ sagði Guðmundur þegar mbl.is ræddi við hann í dag. 

Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni gegn heimamönnum á EM.
Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni gegn heimamönnum á EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Eftir sjö leiki í riðlakeppnini og í milliriðli vann Ísland fimm leiki þótt mikið hafi gengið á í herbúðum Íslands eins og rækilega hefur komið fram. Er Guðmundur ánægður með árangurinn?

„Jú ég get ekki verið annað. Sérstaklega við þessar aðstæður. Mér þætti gaman að sjá önnur lið fara í gegnum þetta eftir að hafa misst út ellefu leikmenn. Þar á undan átta eða níu og þar á undan sex leikmenn. Við höfum spilað við frábær lið og ég er gríðarlega stoltur af liðinu,“ sagði Guðmundur og blaðamaður hefur skynjað að fólk heima á Íslandi sé einnig stolt af liðinu. Hefur Guðmundur orðið var við stuðning að heiman?

Þjóðin stendur á bak við okkur

„Já ég hef orðið var við hann og við erum mjög þakklátir fyrir það. Þjóðin stendur á bak við okkur. Mig langar bara til að benda á að Covid hefur gert okkur svakalega skráveifu. Ég hefði eiginlega þráð að fá að spila þetta mót á okkar sterkasta liði og það hefði verið gaman að sjá niðurstöðuna úr því. Ég er ekki í vafa um hvar það hefði endað að þessu sinni. Við hefðum farið mjög langt og enn lengra en við erum komnir. Erum við þó komnir lengra en margir trúðu á. Að spila um 5. - 6. sæti á EM er frábær árangur,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson ennfremur í samtali við mbl.is. 

mbl.is