Börðumst fram á síðustu sekúndu

Elvar Örn Jónsson í hörðum slag í dag.
Elvar Örn Jónsson í hörðum slag í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég er hrikalega svekktur en á sama tíma stoltur. Við börðumst fram á síðustu sekúndu,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handbolta, í samtali við RÚV eftir 33:34-tap gegn Norðmönnum um 5. sætið á EM í dag.

„Þetta voru tvö hörkulið sem voru að keppa á fullu allan tímann og svo ræðst þetta bara á einu skoti,“ sagði Elvar. Hann gat tryggt Íslandi sigur í lok venjulegs leiktíma en hitti ekki opið markið við eigin vítateig.

„Þetta var bara í augnablikinu. Ég skaut og það fór eins og það fór. Ég er svekktur út í sjálfan mig en svona er þetta, maður verður bara að halda áfram,“ sagði Selfyssingurinn. Hann er ánægður með þær framfarir sem liðið hefur sýnt á þessu móti.

„Ég er hrikalega stoltur af öllum þeim sem komu inn í þetta. Við missum hægri og vinstri en það kom alltaf nýr maður í þeirra stað og þeir stóðu sig frábærlega. Við erum orðnir hrikalega sterkir sem ein heild. Sóknin og vörnin voru frábær á þessu móti,“ sagði Elvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert