Ísland stríðir gegn öllum náttúrulögmálum

Ómar Ingi Magnússon er einn af bestu handboltamönnum heims, segir …
Ómar Ingi Magnússon er einn af bestu handboltamönnum heims, segir Nygård. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Það stríðir gegn öllum náttúrulögmálum að Ísland skuli eiga eitt af bestu handboltalandsliðum í heiminum.

Þetta segir norski íþróttafréttamaðurinn Stig Nygård í grein á vefsíðu TV2 í Noregi í aðdraganda leiks þjóðanna í dag um fimmta sæti Evrópumótsins í Búdapest.

Hann setur íslenska liðið í norskt samhengi með því að benda á að á Íslandi búi jafnmargir og í Bergen og nærsveitum. Nygård stillir upp úrvalsliði Bergen þar sem hann nær að tína til tvo leikmenn úr tuttugu manna hópi Norðmanna á EM. 

Þetta undirstriki hvers konar ævintýri íslenski handboltinn sé í raun og veru.

„Ísland á í kringum 30 leikmenn í sterkustu deildum Evrópu. Til samanburðar á Bergen þá Harald Reinkind í Kiel og Eivind Tangen í Skjern. Við Norðmenn, með okkar rúmlega fimm milljón íbúa, eigum ekki einu sinni 20 leikmenn í þessum deildum,“ segir Nygård.

„Íslendingarnir láta líka til sín taka. Tvö síðustu tímabil hafa markakóngar þýsku Búndeslígunnar verið íslenskir. Veturinn 2019-20 var það Bjarki Már Elísson sem skoraði mest í sterkustu deild í heims og á síðasta tímabili var það Ómar Ingi Magnússon sem trónaði efst á markaskoraralistanum. Rétt er að taka fram að Bjarki er líka efstur það sem af er þessu tímabili.

Bjarki Már Elísson er markahæstur í þýsku Bundesligunni og varð …
Bjarki Már Elísson er markahæstur í þýsku Bundesligunni og varð markakóngur hennar 2019-20. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Á meðan flestir í „landsliði“ Bergen berjast um að halda sæti sínu í norsku úrvalsdeildinni þá þiggja íslensku landsliðsmennirnir laun sín hjá stórliðum Evrópu,“ segir Nygård og bendir svo á aðra staðreynd.

„Það er eitt að Ísland sé meðal bestu liða heims í dag. En svo er allt annað mál að Íslendingar hafa verið þarna síðan upp úr 1980. Á meðan Tor Edvin Helland, Oddvar Jakobsen og Harold Sletten eru helstu stjörnur Bergen þá hefur Ísland átt leikmenn meðal þeirra bestu í heiminum eins og Alfreð Gíslason, Kristján Arason, Ólaf Stefánsson og Guðjón Val Sigurðsson.

Þýska goðsögnin Stefan Kretszchmar valdi á dögunum fimm bestu handboltamenn sögunnar og var með Ólaf Stefánsson í fimmta sæti. Guðjón Valur hefur skorað flest landsliðsmörk allra handboltamanna heims, 1.879 talsins fyrir Ísland.

Margir héldu að stórveldistími Íslands væri liðinn þegar kynslóðin sem vann silfrið á Ólympíuleikunum 2008 og bronsið á EM tveimur árum síðar rann sitt skeið á enda.

En Guðjón Valur, Alexander Petersson og Arnór Atlason héldu þessu gangandi lengur en nokkur bjóst við og sáu til þess að kynslóðaskiptin gengu snurðulaust fyrir sig. Auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson og Aron Pálmarsson voru þegar komnir í liðið og tóku við sem leiðtogar næstu kynslóðar.

Ég hef enga trú á því að Ísland hverfi úr hópi bestu liða heims næstu árin. Fyrir utan Björgvin og Aron eru það bara Bjarki Már Elísson og Ólafur Guðmundsson sem eru í kringum þrítugt. Aðrir eiga yfirleitt eftir að komast á hátind ferilsins.

Gísli Þorgeir Kristjánsson verður í fremstu röð næstu tíu árin, …
Gísli Þorgeir Kristjánsson verður í fremstu röð næstu tíu árin, telur Nygård. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Magdeburg-tvíburarnir Gísli Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon eiga eftir að vera lykilmenn á stóra sviðinu næstu tíu árin ef þeir sleppa vel frá meiðslum. Ómar hefur sýnt á EM að hann er að komast í hóp allra bestu leikmanna heims. 

Handboltinn á sterkar rætur á Íslandi og það fæst ekki betri sönnun þess en Viggó Kristjánsson.

Fimmtán ára gamall valdi hann fótbolta framyfir handbolta. Hann spilaði með unglingalandsliði Íslands og með Breiðabliki í efstu deild. Hann tók líka þátt í að slá Sturm Graz út úr Evrópudeildinni. En handboltinn varð hans íþrótt. Tvítugur gaf hann fótboltadrauminn upp á bátinn og valdi handboltann. Átta árum síðar er hann stjarna hjá Stuttgart í Búndeslígunni og spilar með Íslandi á EM.

Viggó Kristjánsson valdi handboltann tvítugur.
Viggó Kristjánsson valdi handboltann tvítugur. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ég er ekki viss um að margir 20 ára gamlir með samning hjá Brann hefðu hætt í fótboltanum til að einbeita sér að handbolta.

Ísland er líka með flesta þjálfara á EM. Til viðbótar við þeirra eigin þjálfara, Guðmund Guðmundsson, er Erlingur Richardsson með Holland og Alfreð Gíslason með Þýskaland. Við skulum heldur ekki gleyma því að við erum með Íslending í okkar röðum. Þórir Hergerirsson er sigursælasti þjálfari norska kvennalandsliðsins,“ segir Nygård.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert