Markakóngstitillinn blasir við Ómari

Ómar Ingi Magnússon skoraði 10 mörk gegn Norðmönnum í dag.
Ómar Ingi Magnússon skoraði 10 mörk gegn Norðmönnum í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ómar Ingi Magnússon á alla möguleika á að verða markakóngur Evrópumóts karla í handknattleik 2022 þrátt fyrir að Ísland hafi lokið keppni og fjögur efstu liðin eigi eftir að mætast í úrslitaleikjum á sunnudaginn.

Ómar skoraði 59 mörk í átta leikjum Íslands og er með tólf marka forskot á næsta mann. Það er Mikkel Hansen sem skoraði átta mörk fyrir Dani í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir Spánverjum í undanúrslitum.

Hansen þarf því að skora tólf mörk í leiknum um bronsverðlaunin gegn Frökkum á sunnudaginn til að ná Ómari en hann er með 47 mörk í sjö leikjum.

Of langt er í næstu menn hjá fjórum efstu liðunum til að þeir eigi raunhæfa möguleika á að komast uppfyrir Ómar Inga.

Arkadiuz Moryto skoraði 46 mörk í sjö leikjum Pólverja sem fóru heim eftir milliriðlakeppnina.

Kay Smits frá Hollandi var langmarkahæstur með 45 mörk í fimm leikjum þegar hann þurfti að fara í einangrun vegna kórónuveirunnar og missti af tveimur síðustu leikjum hollenska liðsins.

Ómar Ingi fór rólega af stað á mótinu þegar hann skoraði þrjú mörk gegn Portúgal og fjögur gegn Hollandi í tveimur fyrstu leikjunum.

Hann skoraði átta mörk gegn Ungverjum og síðan átta mörk gegn Dönum. Þá komu tíu mörk gegn Frökkum, fimm mörk gegn Króötum, ellefu mörk gegn Svartfellingum og loks tíu mörk gegn Norðmönnum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert