Sæti á HM er gulrótin í dag

Elvar Örn Jónsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson (22).
Elvar Örn Jónsson og Sigvaldi Björn Guðjónsson (22). Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Jú það er alltaf gaman að spila á móti Norðulandaþjóðunum og maður vill alltaf vinna þá,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik þegar mbl.is spjallaði við hann í Búdapest í gær.

Framundan í dag er leikur um 5. sæti á EM karla í handknattleik á móti Norðmönnum. 

„Norðurlandaþjóðirnar spila svipaðan bolta og Norsararnir eru gríðarlega sterkir maður á móti manni. Þeir hafa verið þekktir fyrir að keyra upp hraðann og hafa bætt sig ár frá ári. Þeir hafa mannskap í það og nýta leikmannahópinn vel en með því halda þeir uppi hraðanum. Við þurfum að vera tilbúnir að mæta því og ég hef fulla trú á okkur og tel að við getum unnið þennan leik,“ sagði Elvar og hann segir gulrótina vera til staðar fyrir leikinn í dag og því verði ekki erfitt að gíra sig upp fyrir leikinn þótt keppni í milliriðlinum sé lokið.

Elvar Örn Jónsson í leiknum gegn Svartfjallalandi.
Elvar Örn Jónsson í leiknum gegn Svartfjallalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Nei alls ekki. Við erum að hugsa um sæti á HM og það er ennþá í boði. Það væri frábær árangur að ná 5. sæti og við ætlum að komast inn á HM. Það er gulrótin á morgun,“ sagði Elvar Örn Jónsson ennfremur þegar mbl.is ræddi við hann í gær.

mbl.is