Svíar í vandræðum fyrir kvöldið

Hampus Wanne er lykilmaður í sænska liðinu og óvíst er …
Hampus Wanne er lykilmaður í sænska liðinu og óvíst er hvort hann fái að spila gegn Frökkum í kvöld. AFP

Svíar mæta Frökkum í undanúrslitaleik Evrópumóts karla í handknattleik í Búdapest í kvöld en þeir glíma við nokkur kórónuveirusmit í sínum röðum.

Lukas Sandell greinist með jákvætt smit í gær og Linus Persson, skytta frá Nantes, hefur verið kallaður inn í hópinn í hans stað.

Hampus Wanne, Niclas Ekberg og Daniel Pettersson, sem allir höfðu smitast af kórónuveirunni áður en þeir komu á Evrópumótið, hafa greinst jákvæðir á ný og eru í einangrun en það skýrist síðar í dag hvort þeir mega spila.

Þá urðu Felix Claar og markvörðurinn Andreas Palicka eftir í einangrun í Bratislava þar sem Svíar hafa spilað í keppninni fram að þessu, en þeir eiga möguleika á að spila á sunnudag þegar Svíar leika annaðhvort um gullið eða bronsið í Búdapest.

mbl.is